149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

erfðafjárskattur.

10. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðafjárskatt sem mér sýnist að hv. almennir þingmenn Sjálfstæðisflokksins allir, a.m.k. fljótt á litið, flytji. Það er margt áhugavert í umræðunni um erfðafjárskatt, hvaða hugmynd það er. Það að erfðafjárskattur sé einhvers konar tvísköttun — mér finnst það í sjálfu sér ekki vera haldbær rök. Við erum með það mjög víða í kerfinu. Virðisaukaskattur er þannig séð endurskattlagning á peningum sem menn eru búnir að vinna sér inn þannig að það eru í sjálfu sér ekki nein rök.

Hins vegar er dálítið athyglisvert í sögulegu samhengi að í gegnum aldirnar hafa margir fallið á sveif með erfðafjársköttum. Sennilega er þeirra frægastur John Stuart Mill. Hann lagði einmitt til, eins og hv. þingmaður er að leggja til hér, prógressífan erfðafjárskatt. Hugmyndin var að takmarka erfðir sökum þess að hann taldi að erfingjarnir ættu í raun lítinn rétt á að eignast fúlgur fjár eða miklar eignir sem hugsanlega hefðu byggst upp á árhundruðum áður en viðkomandi hefði fengið eignir afhentar. Mill segir, með leyfi forseta:

„Eignir eru aðeins meðöl til að ná tilgangi en ekki tilgangur í sjálfu sér. Rétt eins og öll önnur eignaréttindi getur arfur verið gagnstæður tilgangi mannkynsins alls.“

Það er rétt að hafa í huga að Mill skrifar þetta um miðja 19. öldina, en sjónarmið kunna að hafa breyst síðan þá. Á 21. öld skrifar einmitt franski höfundurinn Thomas Piketty um þetta sama og ræðir það út frá því að það að menn erfi algjörlega óskattlagt háar upphæðir sé í raun hættulegt þeirri samfélagsmynd sem vestræn samfélög hafa byggt upp, þ.e. að smátt og smátt breikki bilið á milli þeirra sem eiga mjög mikið og hinna sem eiga mjög lítið. Þess vegna sé það í sjálfu sér skynsamlegt vegna samfélagsgerðarinnar að skattleggja þetta og nota þá í raun prógressífan erfðafjárskatt til þess að halda aðeins á móti þessari þróun.

Ég vildi kasta þessu inn í umræðuna vegna þess að mér finnst það áhugavert að leggja til þennan skatt, þessa þrepaskiptingu. Auðvitað átta ég mig á því að tilgangur frumvarpsins er að bakka út úr núverandi kerfi. Líklega myndi þetta kosta ríkissjóð eitthvað á þriðja milljarð eða þar um bil. Svo er náttúrlega hið skrýtna í þessu að eitt dánarbú upp á 10 milljarða breytir tekjustofninum það árið og það er í raun aldrei hægt að sjá þetta fyrir. Þess vegna er þetta svolítið sérkennilegt gisk, þ.e. tekjur ríkissjóðs af erfðafjárskatti eru að mörgu leyti dálítið sérkennilegt gisk frá ári til árs.

Ég tek undir það með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að kannski væri betra að hafa þrepin fleiri. Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni að kannski væri efni til þess að hækka örlítið hið svokallaða frítekjumark ef við getum talað um það í þessu samhengi. Þar erum við að tala um 1,5 milljónir, að ég held, eða eitthvað svoleiðis fyrir dánarbú. Í stórum fjölskyldum eru það ekki sérstaklega háar upphæðir á hvern og einn. Þess vegna er kannski eðlilegt að hafa frítekjumörkin aðeins hærri.

Ég vil líka taka undir þau sjónarmið sem hafa komið hér fram eða a.m.k. velta þeim upp, sjónarmið sem hv. þm. Óli Björn Kárason kom inn á áðan. Það er kannski eðlilegra að nota upphæð vænts arfs einstaklings frekar sem viðmiðið en heildarupphæð í einhverju dánarbúi. Við skulum taka einn einstakling sem erfir heilt dánarbú. Þá er verulegur munur á því hvort hann eða hún ein erfir 50 milljónir eða hvort þær skiptast á milli þriggja eða fjögurra aðila, þess vegna er kannski eðlilegra að miða við það heldur en þetta.

Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þm. Óla Björn Kárason í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál. Ég veit að við munum eiga þar góðar viðræður.