149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[18:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka svarið. Ég er ekki miklu nær, en ég held ekki heldur að við útkljáum þetta hér og nú.

Mig langar til að nýta tímann og fara þá í næstu spurningu. Ég verð reyndar að fá að gera athugasemd við þessi orð, hagnaðardrifna þjónustu. Ég þekki fjölda aðila í heilbrigðiskerfinu sem hefur lagt hjarta og sál, eigin fjármuni, tíma og orku, í að byggja upp opinbera heilbrigðisþjónustu í sjálfstæðum rekstri sem við reiðum okkur á. Þetta er gömul saga og ný. Þetta fólk tekur gríðarlega áhættu. Er hugmynd ykkar, hv. þingmanns og félaga í Vinstri grænum, sú að þegar um slíkan rekstur er að ræða megi ekki — ég get ekki skilið þetta öðruvísi — skila hagnaði, t.d. til að dekka tap og bæta upp fjárfestingu? Er þetta opinn tékki, verður héðan í frá hægt að treysta því að gerist eitthvað, verði einhverjar slíkar breytingar á aðstæðum að fyrirtækið skili mínus, verði rekið röngu megin við strikið, komi ríkið bara inn og greiði þetta upp? Ætlar ríkið að leggja til alla fastafjármuni allra aðila á einkamarkaði af því að reksturinn má ekki skila þeim afgangi að hann standi undir þeim fjárfestingum? Ætlar ríkið að eiga alla fastafjármuni í allri heilbrigðisþjónustu ef þetta gengur eftir? Hvernig virkar þetta?

Þetta er gríðarlega flókið. Það er ekkert öðruvísi. Ég geri alvarlegar athugasemdir við að þessu sé varpað hérna inn í stóru myndina þar sem verið er að tala um að reyna að ná sátt um heilbrigðisstefnu og síðan komi aðgerðaáætlun í kjölfarið.