149. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2018.

sjúkratryggingar.

11. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni áhugaverða ræðu. Það er gott til þess að vita að við þingmaðurinn deilum þeirri sýn á Landspítala – háskólasjúkrahús að hann eigi að vera sterkur og öflugur spítali sem ríkið eigi að reka. Ég er ánægður með það.

Það sem hv. þingmaður er mér ekki sammála um er þetta með að þar sé eðlislægt um sérstaka þjónustu að ræða. Hann tók mjög gott dæmi þar sem hann átti væntanlega við að læknir afhendi sjúklingi lyf. Það er nefnilega ekki þannig. Að baki því býr margt annað en bara það að skrifa lyfseðil. Að baki því býr margra ára reynsla, þekking o.s.frv. sem setur seljandann, í þessu tilfelli lækninn, í algera yfirburðastöðu gagnvart kaupandanum. Sú staða er ekki fyrir hendi þegar t.d. byggingaverktaki ákveður að byggja spítala fyrir ríkið. Þá er staðan miklu jafnari.