149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[12:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka þá umræðu sem hér fer fram. Ég held að það sé ágætt að við ræðum þessi mál á þingi þó að ég sjái ekki að þessi ágæta skýrsla bæti svo miklu við það sem áður hefur verið sagt, skrifað eða gert varðandi það að efla traust almennings á stjórnmálum. Þetta er ágæt samantekt um þær hugmyndir sem komið hafa fram og vissulega er bent á leiðir. En ég held að í grunninn sé vandinn hjá okkur sjálfum, hvernig við tölum og hvernig við framkvæmum hlutina. Ekki það að við þurfum sérstakar reglur eða utanumhald um það hvernig við störfum og vinnum. Það eru ágætar reglur í gildi í dag varðandi hagsmunaskráningu, upplýsingagjöf og slíkt sem ég er að sjálfsögðu mjög fylgjandi; að opna bókhald Alþingis o.s.frv.

Hv. þm. Njörður Sigurðsson kom inn á traust í umræðum á Alþingi í gær. Það var mjög vel gert hjá honum. Það er akkúrat það sem við þurfum að hafa í huga, orð og efndir. Þannig mælir fólk líka traust; hvað við segjum áður en við förum af stað, hvað við segjum þegar við erum í vinnunni eða að vinna að málinu og hvernig við lokum því svo. Það skiptir máli.

Það má eiginlega segja að umræðan sé að mörgu leyti tæmd. Búið er að fara yfir flest það sem manni kom til hugar að ræða undir þessari umræðu. Mig langar þó að taka undir orð hv. þm. Brynjars Níelssonar þar sem hann ræðir um að það sé ekki endilega það að binda í lög eða reglur starfshætti eða framkomu fólks sem skili árangri. Við höfum séð það nú þegar. Við höfum ákveðnar siðareglur, við höfum ákveðnar reglur sem heita þingsköp þar sem talað er um hvernig við eigum að koma fram hvert við annað. Samt dæla menn úr þessum ræðustól út alls konar dylgjum, órökstuddum fullyrðingum, ósannindum og slíku, ekki síst um aðra þingmenn. Það er vitanlega það sem dregur niður trúverðugleika þeirrar stofnunar sem við vinnum í fyrir fólkið.

Ég held að hvert og eitt okkar þurfi að horfa inn á við og velta því fyrir sér að við getum hugsanlega borið ábyrgð á því að traustið hefur minnkað. Reglur laga ekki það hvernig við tölum hvert um annað, hvernig við tölum um Alþingi eða hvernig við komum fram hér. Það eru engar reglur sem munu koma í veg fyrir að menn láti út úr sér alls konar þvælu sem engin rök geta stutt. Það er vitanlega best að vera bara hreinskiptinn og heiðarlegur, segja satt, vera sannsögull, standa við loforðin og tala ekki hvert annað niður. Ég held að það sé það sem mestu skiptir.

Hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði hér ágætlega í ræðu sinni að við værum í þjónustustarfi. Það er alveg hárrétt, við erum í þjónustustarfi. Við erum að þjónusta almenning, við erum að þjónusta fólkið sem kýs okkur og við þurfum að svara fyrir það á fjögurra ára fresti því að þetta er tímabundið starf. Ráðning okkar í þetta starf er bara tímabundin. Við erum ekki æviráðin til að standa hér og vinna að þessu. Þar af leiðandi er það fólkið sem kýs okkur sem dæmir okkur á fjögurra ára fresti eða með styttra millibili — það hefur komið fyrir að menn hafi fengið vinnu hér í minna en fjögur ár. Á fjögurra ári fresti er kveðinn upp dómur, þá förum við aftur í starfsmannaviðtalið. Ef við höfum ekki staðið okkur verðum við ekki endurráðin. Þannig er það.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að teygja lopann um þessa skýrslu. Skýrslan er ágætisplagg en hún bætir engu við að mínu viti. En það má alveg velta því fyrir sér hvort þeir sem komu að þeirri vinnu — það er kannski ekki fallegt að vera að draga úr trúverðugleika fólks í þessum ræðustól, en ég leyfi mér að efast um að þeir hafi verið hreinan hug þegar þeir komu að þessari vinnu, eins og komið hefur fram í umræðum í dag. Fræðimenn eins og aðrir hafa tjáð sig um hin ýmsu mál og það litar eðlilega vinnu þeirra og skoðanir.