149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

efling trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.

[13:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu hefur margt ágætt verið sagt og þingmenn komið víða við eins og gefur að skilja þegar málefni af þessu tagi eru til umfjöllunar. Margt af því hefur verið almennt, almennar hugleiðingar um stöðu stjórnmála og traust á stjórnmálum og stjórnsýslu eins og tilefnið gefur okkur færi á að ræða. Stöku maður hefur misst sig í dægurþras eða pólitískar skylmingar. Við því var svo sem líka að búast en kannski var minna af því en maður hefði getað ímyndað sér fyrir fram.

Það hefur hins vegar vantað svolítið í þessa umræðu að rætt sé um þau atriði sem skýrsluhöfundar fjalla sérstaklega um í texta sínum. Þar er að finna umfjöllun um tiltekin atriði sem og tilteknar tillögur sem að einhverju leyti koma til okkar til frekari umfjöllunar ef lagabreytinga er þörf eða inn á borð ríkisstjórnar þar sem þörf er á reglusetningu eða öðru þess háttar. Kannski verðum við bara að geyma þá umræðu að mestu leyti þangað til einstakar tillögur koma hingað til umfjöllunar.

Það má eiginlega segja að hafi markmiðið með því að taka skýrslu þessarar nefndar til umfjöllunar í þingsal verið að ræða þær tillögur sem þar eru lagðar fram hefur það ekki tekist. Það er þá bara eftir, við eigum þá eftir að fara yfir þær einstöku tillögur sem þarna er að finna. Hafi markmiðið hins vegar verið að fá fram almenna umræðu um siðferði í stjórnmálum, stöðu stjórnmálamanna og annað þess háttar, að menn eigi að standa við orð sín og svona, tókst það. Sú umræða hefur farið fram hérna.

Ég tek undir með þingmönnum sem hér hafa talað og bent á að fyrir okkur eins og alla aðra í samfélaginu er hollt að velta fyrir sér stöðu sinni og stöðu þeirrar stofnunar sem við störfum innan. Það er hollt fyrir þá sem starfa í stjórnmálum að velta fyrir sér hvers vegna traust á stjórnmálum hefur, að því er virðist, minnkað töluvert hér á landi og töluvert í ýmsum öðrum löndum en aðstæðurnar eru kannski að einhverju leyti misjafnar. Þó er sú þróun sem hér hefur átt sér stað ekki verið einstök.

Það er líka hollt fyrir okkur að velta fyrir okkur hvernig við sem stjórnmálamenn getum hvert fyrir sig átt þátt í að byggja upp meira traust á okkur og störfum okkar. Sennilega er fátt dýrmætara fyrir stjórnmálamann en að njóta trausts.

Það má taka undir það sem kom fram hjá fleirum en einum, m.a. ágætlega hjá hv. þm. Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, að þarna er auðvitað um að ræða langtímaverkefni. Kannski eru áhrifaríkustu leiðirnar til að byggja upp traust til lengri tíma, eins og hún nefndi í ræðu sinni, upplýsing og opin stjórnsýsla. Það eru mikilvægir þættir, að ákvarðanir séu teknar fyrir opnum tjöldum og að forsendur þeirra, röksemdir með og á móti, liggi fyrir og séu ræddar opinskátt.

Ég get tekið undir ýmislegt sem aðrir sögðu, t.d. það sem hv. þm. Karl Gauti Hjaltason sagði, að traust eykst ekkert endilega við það að þingmenn standi hér dögum saman og tali sig hása um traust. Það gerist ekki þannig, það eru verkin sem tala, það er framganga manna og verk þeirra sem skila trausti til lengri tíma. Það að berja sér á brjóst og tala mikið um slíka hluti þjónar litlum tilgangi ef ekki er einhver samsvörun við hina raunverulegu framgöngu og verk manna. Þar erum við sjálf, stjórnmálamennirnir, ekki endilega dómarar hvert í annars sök eða eðlilegt að sá mælikvarði sem lagður er á sé bundinn í eitthvert stofnanaumhverfi, siðanefndir eða þess háttar. Við sem stjórnmálamenn leitum eftir umboði kjósenda og það er þar sem matið þarf að fara fram. Við eigum að leggja verk okkar í dóm þeirra kjósenda sem veita okkur umboð, sem geta stutt það sem við erum að gera, haft lítið álit á okkur eða mikið, en það endurspeglast þá þar frekar en að nefndir á vegum þings eða stjórnsýslunnar eigi að vera úrskurðaraðili um þau atriði sem geta orðið að álitamálum í þessu sambandi.

Ég held að ég láti það verða mín lokaorð í þessu af því að ég ætla ekki, frekar en flestir aðrir sem hér hafa talað, að fara út í einstakar tillögur starfshópsins. Um leið og það er mikilvægt að við tökum umræður af þessu tagi, hvort sem það er gert í þingsal, í þingnefndum eða annars staðar í okkar hópi, og veltum fyrir okkur hvernig við getum gert betur í störfum okkar, hvernig við getum betur orðið traustsins verð gagnvart þeim sem hafa veitt okkur umboð til að starfa hérna, eigum við að varast að hafa oftrú á að stofnanabinda, formbinda, þessa þætti. Ég held að ákveðin oftrú á því geti með einhverjum hætti leitt af sér falskt öryggi, að af því að búið er að haka við einhvern lið þar sem segir að kynna eigi siðareglur fyrir starfsmönnum ráðuneyta séu hlutirnir í lagi. Ég held hins vegar að umræða og umhugsun af þessu tagi sé jákvæð og að á þeim forsendum vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að leggja þessa skýrslu fram í þinginu en áskil mér rétt til að hafa alls konar skoðanir á einstökum tillögum sem fram hafa komið í þessum efnum þegar þær koma hingað til umfjöllunar síðar.