149. löggjafarþing — 8. fundur,  20. sept. 2018.

þinglýsingalög o.fl.

68. mál
[13:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er reyndar svo, og er allrar umræðu vert, að huga að markmiðum með varðveislu gagna almennt. Tilgangurinn er tvenns konar í grófum dráttum: Annars vegar að varðveita skjöl sem hafa enn þá einhverja þýðingu, einhver réttaráhrif, er ætlað að mæla fyrir um rétt eða skyldur manna, eins og mörg þinglýsingaskjöl gera. Svo er það hinn þátturinn, sem er kannski meira sögulegs eðlis, og er af allt öðrum toga. Þinglýsingagögn, jafnvel þótt þau séu fallin úr gildi og hafi t.d. veitt heimildir um forna eignarheimild, geta haft einhverja réttarsögulega þýðingu. En það kemur hins vegar einhvern tíma að þeim tímapunkti að menn þurfa að ræða það og taka ákvörðun um hversu lengi ríkinu er ætlað að varðveita slík gögn. Fleirum en ríkinu er í lófa lagið að varðveita slík gögn. Það getur átt við í einhverjum tilvikum að skylda ríkið til að rækja þetta hlutverk, en í öðrum ekki.

Við stöndum frammi fyrir þessari áskorun núna þegar við erum búin að tileinka okkur tæknilega þekkingu á ýmsum sviðum. Ég nefni t.d. rafræna stjórnsýslu hjá dómstólum og annað, gögn sem verða til með rafrænum hætti og eru vistuð þar. Það er áskorun hjá okkur núna, t.d. með nýjum Landsrétti þegar verið er að gera skýrslutökur og annað fyrir dómi sem er varðveitt. Það er alveg gríðarlegt gagnamagn og ekki bara kostnaðarsamt að geyma það heldur má á einhverjum tímapunkti reikna með að ómögulegt verði að geyma það. Þá þurfa menn að fara að grisja eins og hægt er, eins og heimilin í landinu gera kannski á tíu ára fresti í geymslunni hjá sér. Hverju má henda? Ég held að ekki sé þörf á að varðveita öll þessi gögn en menn þurfa í upphafi að vera mjög meðvitaðir um varðveisluna og reyna að átta sig á og ákveða um hvers lags gögn er að ræða, (Forseti hringir.) hvort vert sé að geyma þau til lengri tíma og huga að því strax í upphafi. En það verður gert í þessari vinnu varðandi rafrænar þinglýsingar.