149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi andsvör. Ég er sammála. Það er ekki um stórar upphæðir að ræða. Þetta er sanngirnismál. Og það er annað sem gleymist í þessu öllu. Ég var að tala um 60 þús. kr. skerðingar, vegna sérstöku uppbótarinnar, hjá þeim sem verst fara út úr þessu. Það gleymist í því samhengi líka að ef viðkomandi hefur einhverjar tekjur annars staðar frá, bara einhverjar atvinnutekjur, er það tekið. Ég horfði upp á dæmi um einstakling sem fékk 300 þús. kr. atvinnutekjur fyrir mánaðar sumarvinnu sem hann gat unnið, öryrki, ofsalega ánægður með það. Fékk þarna smátekjur. Borgaði sína skatta af þeim. Og hann var í góðri trú um að hann fengi nú að halda restinni af því að hann skuldaði smá og hugsaði með sér: Fínt, ég vinn fyrir þessu og borga skuldina og ég er í góðum málum. Hver einasta króna tekin. Ekki bara skattpeningurinn heldur var allur 300 þúsund kallinn tekinn af honum, strax ári seinna.

Getið þið ímyndað ykkur hvernig þetta fer með einstakling sem er veikur fyrir og er að reyna að bjarga sér? Hann er gersamlega laminn niður. Við getum bara sett þetta í samhengi við okkur á þingi, á góðum launum. Hvernig myndum við taka því ef það væri komið svona fram við okkur? Eða aðra launamenn í landinu? (Gripið fram í.) Það dettur engum í hug að gera þetta við neina aðra þegna þessa lands. Enga aðra en þá sem eru veikir, um þá má setja svona gersamlega fáránleg ólög.