149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Þórunn Egilsdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir þetta andsvar. Þessi mál má öll skoða og taka upp. Við getum alveg rætt um það hvort ríkið á yfirleitt að eiga eitthvert land eða ekki. En við getum líka velt því upp, eins og staðan er núna, að það er afskaplega erfitt fyrir ungt fólk að hefja búskap. Við eigum margt mjög vel menntað fólk til þess að stunda landbúnað. Er möguleiki fyrir ríkið að auðvelda fólki að koma inn í atvinnugreinina? Við viljum hafa hér matvælaframleiðslu og við viljum byggja landið allt. Hvernig ætlum við að nýta jarðirnar? Það er hellingsvinna í þeim geira, að finna út hvernig við ætlum að nýta landið, hvaða land á að nýtast til hvers.

Ég held að við getum alveg tekið þá umræðu eitthvað áfram, hvernig við ætlum að gera þetta. Við erum búin að leggja fram mjög metnaðarfulla byggðaáætlun sem við ætlum að vinna áfram. Þetta þarf allt að tala saman, allar áætlanir ríkisins. Nú erum við að tala um samþættingu áætlana ríkisins alls og Stjórnarráðið vinnur nú í því að samþætta allar áætlanir, hvort sem það er byggðaáætlun, samgönguáætlun eða hvað. Gæti þessi vinna ekki fallið inn í það, þ.e. hvernig við ætlum að nýta þessar jarðir?

En auðvitað þurfum við að tala um það hvar mörkin liggja, hvaða jarðir við getum talið eðlilegt að ríkið eigi vegna sögulegra eða sérstakra ástæðna, jarðir sem ríkið á vissulega að halda í og nýta. En svo er spurningin líka hvernig ríkið geti komið að því og stutt þessa atvinnugrein eins og við höfum verið að gera, bara til þess að sjá til þess að við byggjum landið allt áfram.