149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni nýtt þingmál sem ég hef lagt fram en það veitir þolendum í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum rétt til gjafsóknar. Ég hef fengið 1/3 hluta þingmanna með mér á það mikilvæga mál.

Með samþykki málsins munu brotaþolar í þessum brotum eiga möguleika á að koma einkaréttarlegum kröfum sínum að, sér að kostnaðarlausu, þegar þær hafa ekki fengið framgang í sakamáli. Slíkt getur nefnilega gerst þegar sakamál eru t.d. felld niður á rannsóknarstigi af ýmsum ástæðum, svo sem vegna mistaka lögreglu eða vegna þess að nægar sannanir teljast ekki vera til staðar að sakamálarétti eða þegar sýknað er í sakamálinu.

Við þær aðstæður kann að vera hægt að fara í einkamál til að fá einkaréttarlegum kröfum framgengt enda eru sönnunarkröfur þar minni en í sakamáli. Þá kæmi þetta nýja gjafsóknarúrræði til sögunnar.

Löggjafinn hefur nefnilega nú þegar tekið þá ákvörðun að í sumum málum skuli gjafsókn heimiluð, burt séð frá efnahag umsækjanda, t.d. í þjóðlendumálum, málum sem lúta að vinnudeilum fyrir félagsdómi og öðrum slíkum. Ég tel, ásamt meðflutningsmönnum mínum, að heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamál eigi hiklaust heima í þeim flokki, mála sem heimila gjafsókn.

Herra forseti. Efnahagur fólks og fjölskyldu á ekki að ráða því hvort hægt sé að sækja einkaréttarlegar kröfur í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum. Ég vil nota þetta tækifæri til að hrósa sérstaklega þeim einstaklingum, Rúnu Guðmundsdóttur og öðrum, sem hafa einmitt bent á að hér er pottur brotinn og við getum gert betur.

Herra forseti. Ég er nýbúinn að leggja fram mál sem lýtur að lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Forseti hringir.) Ég tel það mál vera af sama meiði. Þetta er réttlætismál og ég vona að við getum (Forseti hringir.) sýnt með þverpólitískum hætti að við viljum að það nái fram að ganga.