149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ferðaborgin Reykjavík laðar til sín alls konar fólk sem á alls konar erindi, sem er gott. Nú í vikunni funduðu hér norrænir hjúkrunarfræðingar. Fréttaflutningurinn af þeim fundi vakti athygli mína. Í yfirlýsingu sem nokkrir fjölmiðlar birtu í gær kom fram að launaójöfnuður væri meginþema þessa stóra fundar. Yfirlýsing frá þeim segir að könnun á launakjörum sýni að launamunur karla og kvenna sé umtalsverður og konur í hefðbundnum kvennagreinum, svo sem hjúkrun, séu með um 80% af launum í karlagreinum við svipað menntunarstig, segja norrænir hjúkrunarfræðingar.

Stjórn þessara samtaka sendi frá sér yfirlýsingu, kvaðst vera komin með nóg af launaójöfnuði og kallar eftir pólitískum viðbrögðum til að takast á við ósanngjarnan launamun í störfum sem krefjast sambærilegrar menntunar. Ég verð að segja að þarna er ég sammála. Enda kölluðum við í Viðreisn, ásamt góðum hópi þingmanna, eftir því í vor að fjármálaráðherra yrði falið að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, um bætt launakjör kvennastétta. Átakið fól í sér að m.a. yrði gerður sérstakur kjarasamningur um bætt launakjör þessara stétta.

Eins og gengur og gerist tók málið breytingum í meðförum þingsins og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar lagði fram tillögu sem heldur tók nú bitið úr þessu. Það átti að skoða málin áfram. Ég lýsi hér yfir áhuga mínum á því að raunveruleg pólitísk viðbrögð verði við þessu máli; þetta gæti hreinlega orðið ágætt innlegg í komandi viðræður vegna þess að þessar raddir eru ekkert að þagna. Við erum bara rétt að byrja hér að kalla eftir því að þetta óréttlæti og ójafnvægi verði leiðrétt og kalla eftir pólitískum viðbrögðum.