149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Á næsta ári, nánar tiltekið 3. september, eru 100 ár liðin, aldarafmæli flugs á Íslandi. Þá verða 100 ár síðan Avro 504K hóf sig til lofts í fyrsta sinn í Vatnsmýrinni. Ég reikna með að leggja fram þingsályktunartillögu eftir kjördæmavikuna, tillögu sem snýr að því að stjórnvöld skipuleggi hátíðarhöld, dagskrá, til að fagna þessum tímamótum með grasrótinni í fluginu hér á landi; Flugmálafélagi Íslands, Flugsögufélaginu og Flugsafni Íslands.

Það er öllum ljóst hvað flugið og flugstarfsemi á Íslandi hafa skipað stóran sess í samgöngu- og atvinnuþróun landsins, bæði innan sem utan lands, og því er við hæfi að við fögnum þessum áfanga.

Flugið á Íslandi er stór hluti sögu þjóðarinnar síðastliðna öld. Stór hluti landsframleiðslu hér á landi tengist fluginu. Árið 2011 var hlutfall flugsins í landsframleiðslu talið vera 6,6%, samkvæmt skýrslu Oxford Economics. Í dag er talið að þetta hlutfall sé á bilinu 12–14%.

Ég hef sjálfur talað lengi fyrir því að þessi skýrsla, sem gefin var út árið 2011, verði unnin á ný til að fá fram mikilvægar upplýsingar og þá kannski sérstaklega í tengslum við þær aðstæður sem uppi eru í fluginu og hafa verið til umræðu síðastliðnar vikur og mánuði.

Að lokum vil ég fagna því sem samgönguráðherra hefur boðað hér úr pontu Alþingis að unnin verði flugstefna fyrir Ísland þannig að mynduð verði heilsteypt áætlun um þessi mál af hálfu stjórnvalda með svipuðum hætti og mörg erlend ríki hafa sett sér.