149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera að umræðuefni mínu hér sama mál og hv. þm. Teitur Björn Einarsson ræddi um en það er frumvarpið um veiðigjöld.

Þetta frumvarp var kynnt okkur þingmönnum í stjórnarandstöðunni í gær uppi í ráðuneyti og ég hef verið svona að glöggva mig á því og fara í gegnum það. Við fyrstu sýn sýnist mér þetta vera á margan hátt til bóta, það einfaldar útreikning, það færir ákvörðunina nær í tíma með reikniaðferðinni. Já, þar með er kannski upptalið það sem mér fannst vera til bóta.

Það sem ég fann ekki í þessu frumvarpi er það hvað er til bóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Það veldur mér vonbrigðum vegna þess að ég hafði vonað að tekið yrði á því. Það eru mikil vandræði í greininni, sérstaklega hjá útgerðum sem flokkast undir litlar og meðalstórar, hvar sem það byrjar eða þau skip byrja eða hætta. Sú staðreynd að útgerðum hefur fækkað síðustu tólf árin úr 950 útgerðum með aflahlutdeild niður í 380 í ár er mjög alvarlegt mál.

Sjávarútvegur þarf að dafna um allt land eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, en þá þurfum við líka að taka á þeim vandamálum sem eru augljós. Ráðherrann sagði í gær að það kostaði að veiða, það borguðu allir jafnt fyrir það, það kostaði líka að fara upp í á og veiða lax. (Forseti hringir.) En hverjir fara upp í á og veiða lax? Það eru ekki Jón og Gunna sem eru á kassanum úti í Bónus, það eru einhverjir sem hafa efni á því að (Forseti hringir.) veiða lax. Þess vegna er ekki rétt gefið í þessu frumvarpi og ég mun bregðast betur við því síðar.