149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[13:52]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég byrji á því að svara spurningunni sem ég náði ekki í fyrra svarinu, hvort ég sé að leggja til að veiðigjaldið verði dregið frá launum sjómanna: Að sjálfsögðu ekki. Í augnablikinu er verið að draga svo margt annað af launum sjómanna að það er alveg ótrúlegt að nokkur skuli í rauninni nenna að sinna þessu starfi. Reyndar er tilfellið að það verður æ erfiðara að manna stöður um borð í skipum. Ég heyrði af einu mjög góðu skipi um daginn sem var ótrúlega erfitt að manna vegna þess að fólk gat hreinlega fengið betri laun í landi og þurfti þá ekki að vera langt frá fjölskyldum sínum. Núna er meira að segja verið að draga endurnýjunarkostnaðinn við skipin af sjómönnum.

En hvað uppboðshönnun varðar er ég ekki að tala fyrir ákveðnum reglum. Ég er ekki að tala fyrir ákveðinni hólfun. Ég er að tala fyrir því að við fáum helstu sérfræðinga heims á sviði uppboðshönnunar til að koma að því hvernig við gerum þetta á skynsamlegan hátt. Ég er ekki sérfræðingur í uppboðshönnun, ekkert frekar en hæstv. ráðherra, en við eigum til þessa sérfræðinga. Þeir eru til og við getum algjörlega farið að tala við þá vegna þess (Forseti hringir.) að það er leiðin sem við notum til að fá sem best verð fyrir auðlindina, fyrir fólkið í landinu.