149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:06]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að þetta er skattur. Þetta fylgir öllum meginreglum skattaréttar um hvaða kröfur þarf að gera til þess. Til þess liggja m.a. dómar Hæstaréttar sem taka af öll tvímæli um þetta. Þetta er ekki þjónustugjald, þetta er skattur.

Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður er sammála mér um að rétt sé að horfa til afkomu greinarinnar. Hún hefur þýðingu þegar við erum að ræða um hvernig við leggjum þetta á. Það skiptir máli og þá er eðlilegt líka að afkoman versnar sem hún er að gera um þessar mundir. Það liggur alveg fyrir. Tölurnar eru alveg skýrar um að afkoman núna í sjávarútvegi fer hratt versnandi og þá er eðlilegt að veiðigjöldin endurspegli það.

Það er annað sem var ekki alveg rétt í ræðu hv. þingmanns. Aðrar atvinnugreinar greiða nefnilega ekki þessi gjöld. Í fyrsta lagi er sjávarútvegur eina greinin sem greiðir sérstakan skatt eins og um er að ræða hér, engin önnur grein sem nýtir aðrar auðlindir landsins greiðir slíkan skatt. Sjávarútvegurinn er eina greinin þar sem stimpilgjald er lagt á atvinnutæki, ekki neinar aðrar atvinnugreinar. (Forseti hringir.) Sjávarútvegurinn greiðir aukaálag á tryggingagjald. Engin önnur atvinnugrein í landinu greiðir (Forseti hringir.) það. Hefur þetta ekki áhrif á samkeppnishæfni sjávarútvegsins á alþjóðlegum mörkuðum?