149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:08]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er svo sem alveg rétt. Við gætum alveg talað aðeins um það af hverju afkoman er að versna. Það er hreinlega gengi íslensku krónunnar. Ef við værum með betri peningastjórn í landinu eða jafnvel betri gjaldmiðil væri þetta kannski ekki vandamál og þessar sveiflur myndu jafnast út af sjálfu sér. Þetta er vissulega ekki þjónustugjald, auðvitað ekki. Það er enga þjónustu verið að veita. Það er verið að veita aðgang að auðlind. Það stendur vissulega í greinargerðinni að þetta sé einhvers staðar á mörkum þess að vera gjald og skattur en það er grundvallarmunur á þessu tvennu.

Nú segir hv. þingmaður að þetta sé skattur algjörlega án tvímæla og vísar meira að segja í dóm Hæstaréttar. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði við mig í Kastljósinu fyrir tveimur dögum að þetta væri gjald, einmitt ekki skattur. Þá finnst mér tímabært að hæstv. ráðherra og hv. þingmaður komi sér fyrir inni í einhverju herbergi og komist til botns í þessu máli vegna þess að mig langar rosalega mikið að vita hvort þetta sé til að hægt sé að taka (Forseti hringir.) almennilega og upplýsta ákvörðun um þetta. (Gripið fram í.)