149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo sem margt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um eftir ræðu hans, en byrja á þessu. Það er alveg óumdeilt að arðsemi sjávarútvegs í gegnum tíðina hefur verið mjög góð og er enn, meira að segja í samanburði við atvinnulífið almennt. 18% EBITDA-framlög á árinu 2017 eru samt langtum hærri EBITDA-framlög en flestar atvinnugreinar hér á landi búa við. Það sést líka ágætlega í því kaupverði sem er t.d. á aflaheimildum í dag að greinin sjálf virðist ekki vera neitt sérstaklega svartsýn á sínar horfur. Kvótaverð er í ágætishæðum, gengið er tekið að veikjast á ný og fiskverð á erlendum mörkuðum hefur farið hækkandi. Ég sé ekki alveg þá neyð sem þessi atvinnugrein er í. Vissulega eru fyrirtæki misvel rekin, en það virðist heldur ekki sem nein gögn sé að finna um það í sjávarútvegsráðuneytinu að það hafi eitthvað með stærð þeirra að gera.

Er hv. þingmaður í grundvallaratriðum andvígur því að greinin greiði fyrir aðgang sinn að auðlindinni, þetta svokallaða veiðigjald? Um það hefur verið (Forseti hringir.) þverpólitísk samstaða hingað til, að það sé mjög eðlilegt, enda er þetta nokkurs konar hráefnisgjald greinarinnar. Hún greiðir ekkert annað verð fyrir þetta hráefni (Forseti hringir.) sem hún síðan vinnur mikil verðmæti úr.