149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:56]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var svolítið áhugavert svar hjá hv. þingmanni. Þetta minnir jafnvel á fyrsta árs nema í lögfræði sem eru rosalega ákafir um tæknileg skilgreiningaratriði en eru kannski minna áhugasamir um hvernig hlutir virka í praxís. En ég hefði gaman af því ef lögfræðingurinn og hv. þingmaður myndi upplýsa mig um hvaða ákvæði stjórnarskrárinnar það eru sem segja að eingöngu megi rukka skatta eða þjónustugjöld, bara út af því að nú veit ég ekki betur, ég er ekki lögfræðingur.

En fyrst ég hef hv. þingmann langar mig líka að spyrja út í kvótaleigu. Nú er þetta ákveðið fyrirbæri, að aðilar eigi kvóta, eða hafi aðgang að kvóta — þeir náttúrlega eiga hann ekki, samanber 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þeir eru að leigja kvótann frá sér til aðila og leigjendurnir þurfa að borga veiðigjöldin frekar en þeir sem leigja hann frá sér. Hvað þykir hv. þingmanni (Forseti hringir.) um það fyrirkomulag? Væri ráð að breyta því þannig að það væru leigusalarnir sem greiddu þetta veiðigjald?