149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:57]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um spurningu hv. þingmanns, hvar ákvæði um skatta sé að finna í stjórnarskránni, getur hann eflaust flett því upp sjálfur. Það [Hlátur í þingsal.] er þá helst 40. gr. stjórnarskrárinnar sem kæmi til skoðunar í þeim efnum. Það má líka vísa til dómafordæma Hæstaréttar og svo mætti lengi telja.

Kvótaleiga er að mínu mati mjög eðlileg eins og um frjálsan ráðstöfunarrétt réttinda, hvort sem um er að ræða handhafa kvóta eða annars. Ég vil benda hv. þingmanni á að varðandi leiguna er í ákvæðum laga um stjórn fiskveiða lögð ákveðin veiðiskylda á handhafa kvóta, veiðiskylda upp á 50%. Hver er það sem á endanum greiðir (Forseti hringir.) veiðigjaldið? Er það leigusalinn eða leigutakinn? Það má auðvitað útfæra það í samningum þeirra á milli en það endurspeglast þá alltaf í leiguverðinu á endanum.