149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:01]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er, eins og ég kom inn á, áhugavert að velta þessu upp, af hverju sjávarútvegurinn hefur einn atvinnugreina verið tekinn sérstaklega út fyrir sviga varðandi aðgang, getum við kallað það, að auðlindinni. Gildir það sama um orkuna? Greiða orkufyrirtæki landsins fyrir nýtingu á orkunni? Hvernig er þessu öllu háttað? Það er eðlilegt, að mínu mati, að við ræðum þetta í því samhengi.

Það snýr líka að því, sem ég kom hér inn á, að við gætum líka að því að gjaldtaka ríkisins, í hvaða formi sem hún er, sé hófleg, valdi ekki skaða eða tjóni eða skerði samkeppnishæfni þeirra greina sem eru undir hverju sinni.

Hv. þingmaður spyr um tímamörk á nýtingu. Að sjálfsögðu held ég að það varði ekki það sem snýr að álagningu veiðigjalda. Þetta er þá miklu frekar spurning um grundvallaratriði fiskveiðistjórnarlaga. Er tímalengd á nýtingarrétti? Það er a.m.k. ekki kveðið á um það í lögum hver sá tími sé. Það er ekki þannig. Er þá nýtingartími þessarar auðlindar óendanlegur? Ja, óendanlegt er ansi stórt orð. Það er kannski erfitt að vera stjórnskipunarlögfræðingur og segja að tíminn sé óendanlegur. En það er a.m.k. ekki ákvarðað í lögum hver sá tími er.

Ég veit að hv. þingmaður vill fara samningaleið, fara þá leið að ríkið taki til sín aflaheimildirnar, þjóðnýti aflaheimildirnar, og þá er honum mikið í mun að vita hvaða tímamörk gilda, hvenær á að þjóðnýta aflaheimildirnar.