149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem steðjar að útgerðinni og sverfur að, það er alveg rétt. Útgerðin er í raun að takast á við þróun sem hefur átt sér stað síðustu tvö árin og við sjáum alveg hvað er að gerast. Það á sér stað meiri samþjöppun. Hún á sér að vísu fyrst og fremst stað í krókaaflamarkskerfinu. Það eru ekki stóru risarnir sem eru að gomsa þetta í sig eins og oft er látið í veðri vaka. Það er þvert á móti í litla kerfinu þar sem þessi samþjöppun er mjög hröð.

Munurinn er hins vegar sá, þegar við ræðum það hvernig við eigum að beita okkur í því að gera útgerðinni kleift að mæta þessari niðursveiflu, að við erum að reyna að flokka þær eftir getu til að standa undir kostnaði. Við getum horft á þetta hinum megin frá. Stærri útgerðir hagræða með því að segja upp fólki eða draga saman í starfsemi sinni en minni útgerðir eiga í erfiðleikum með það.

Vandinn sem við sem stjórnvald, löggjafi, stöndum frammi fyrir er sá að við erum að leggja á gjald fyrir nýtingu á sameiginlegri auðlind og þar eiga allir að vera jafnsettir. Í sumum tilvikum getur lítil útgerð verið stór í sínu samfélagi og í öðrum tilvikum getur stór útgerð, sem við teljum svo, verið burðarás í litlu samfélagi. Þar liggur ákveðinn vandi og þess vegna hef ég alltaf spurt þegar menn ræða þetta: Ef við eigum að grípa inn í með þessum hætti — þetta var gert á sínum tíma, þetta frítekjumark, menn tala í dag eins og það þurfi að bæta enn meira í það — hvers vegna og hverju mun það skila? Eins og þetta var frágengið á sínum tíma, árið 2014, virðist það ekki hafa skilað því sem menn ætluðu þá. Er þá ekki eitthvað annað í verkinu eða samfélaginu sem veldur þessari þróun?