149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:59]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að heyra samlíkingu hv. þingmanns um að ef maður kippir einum fæti undan ferfættum stól verði stóllinn valtari í ljósi þess að kerfið sem hv. þingmaður ræðir um stendur að mér sýnist bara á einum fæti. Það er sú rammpólitíska ákvörðun sem er tekin af ráðherra og Alþingi hvaða gjöld eru rukkuð fyrir hverja fisktegund hverju sinni. Það er eini fóturinn sem kerfið stendur á og er í rauninni ekkert annað en frekar kommúnísk nálgun að rukka eftir ákvörðun „politburo“ hverju sinni en ég velti samt fyrir mér hvort hv. þingmaður geti útskýrt aðeins fyrir mér á hvaða rökum hann byggi andstöðu sína við þá tillögu sem hefur komið frá mér og mörgum öðrum hv. þingmönnum og stjórnmálaflokkum í gegnum árin um að bæta við fleiri fótum undir þennan stól, t.d. fæti þar sem gjaldið er ákveðið með markaðsaðferð.

Hann nefndi í ræðu sinni að hann væri ekki hrifinn af því að bjóða upp tiltekinn hluta kvótans á markaði sem væri ein leið til að fá fram hversu mikils virði fiskheimildirnar eru fyrir markaðinn, fyrir útgerðina og fyrir þá sem eru að veiða fiskinn. Hann sagðist vera á móti því en hann færði ekki nein rök fyrir því hvers vegna þetta væri slæm hugmynd og mig langar gjarnan til þess að fá að vita hvaða rök eru á móti þessu því að ég þekki engin.