149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:30]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Við í Viðreisn munum að sjálfsögðu koma að vinnslu málsins í atvinnuveganefnd. Hér erum við aðeins í 1. umr. og ég bíð með afstöðu mína þar til ég sé hvernig nákvæmlega frumvarpið verður útfært. Við sjáum ýmsa annmarka á því. Valkostirnir eru hins vegar augljósir hvað næstu áramót varðar, annaðhvort framlengjum við einu sinni enn óbreytt fyrirkomulag eða gerum á því umbætur. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því af raunsæi að við erum ekki að fara að innleiða nýtt kerfi frá næstu áramótum. Við ættum hins vegar að vera að ræða það hvernig við ætlum að hafa kerfið til lengdar í staðinn fyrir að halda áfram að stagbæta það frá ári til árs. Á frumvarpinu eru ýmsir tæknilegir ágallar sem ég vil sjá hvernig atvinnuveganefndin vinnur úr.

Þegar kemur að spurningu hv. þingmanns um hvort ég telji framlegð í sjávarútvegi of háa er svarið nei. Ég fagna því þegar framleiðni í atvinnugrein er jafn mikil og raun ber vitni í sjávarútvegi. Það er ekkert launungarmál að mikil framleiðni í sjávarútvegi er m.a. öflugu og góðu fiskveiðistjórnarkerfi að þakka, ég hef aldrei dregið dul á þá skoðun mína. Þetta kerfi hefur skilað okkur góðum árangri en það þýðir ekki að ekki megi bæta það.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að stjórnvöld geta með of íþyngjandi og duttlungafullri skattlagningu, litlum fyrirsjáanleika, sífelldum breytingum o.s.frv. dregið úr hvata til aukinnar framleiðni í atvinnugreinum, þar með talið sjávarútvegi. Þess vegna skiptir gríðarlega miklu máli að ná samstöðu um auðlindagjaldtökuna sem slíka í sjávarútvegi til langtíma, að ekki sé verið að rífast um þetta frá ári til árs eins og verið hefur undanfarna tvo áratugi og mér sýnist verða framhald á með þessu.

Ég hef líka mjög góða sannfæringu fyrir því að þær hugmyndir sem við í Viðreisn höfum sett fram um markaðsleið skapi fyrirsjáanleika, stöðugleika og nægilega langan (Forseti hringir.) nýtingartíma til að tryggja að greinin haldi áfram að þróa sig á svipaðan hátt og hún hefur verið að gera.