149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:39]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Svo ég sé skýr varðandi markaðsverðmyndun sem þessa er alveg rétt — hv. þingmaður ber gott skynbragð á markaði — að þeim mun fleiri girðingar sem reistar eru hefur að sjálfsögðu áhrif á markaðsverð. Ef einhverjir mögulegir bjóðendur eru útilokaðir kann það alveg að hafa áhrif til lækkunar á markaðsvirði. Við erum ekki að tala um að opna fyrir erlendri fjárfestingu í sjávarútvegi. Það eru ákveðnar girðingar, kannski fyrst og fremst varðandi hámarksaflahlutdeild, sem ég held að séu skynsamlegar girðingar til að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun í greininni. Þær hafa reyndar ekki verið mjög hamlandi, a.m.k. ekki hingað til, en það kann að vera að einstök fyrirtæki fari að banka í efri mörk þeirra girðinga núna.

Auðvitað hefur þetta allt saman áhrif á mögulega verðmyndun á markaði, en það eru samt sem áður ekki stjórnmálamenn sem ráða þeirri verðmyndun, það er markaðurinn innan þeirra afmarkana eða girðinga sem honum er úthlutað sem ræður verðmynduninni til lengri tíma litið. Það er bara með nákvæmlega sama hætti og aflaheimildir hafa skipt um hendur alla tíð frá því að kvótakerfið með frjálsu framsali var innleitt. Markaðurinn hefur verið fullfær um að verðleggja þær aflaheimildir á markaðsvirði á hverjum tíma sem er breytilegt út frá aðstæðum og horfum í greininni með þeim girðingum sem þar hafa verið. Það er ekkert vandamál í því fyrirkomulagi sem við erum að tala um.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, vissulega er blæbrigðamunur á því hvaða áherslur flokkar hafa lagt, en fjölmargir flokkar hafa engu að síður talað út frá tímabundnum nýtingarheimildum og síðan þá hvernig eigi að úthluta þeim sem kunna að vera mjög mismunandi áherslur og þá á hvers konar gjaldtökum eigi að byggja.

Ég hef ekki áhyggjur af því vandamáli, ég hef fulla trú á því að markaðurinn geti allt eins verðlagt þann nýtingarrétt líkt og (Forseti hringir.) hann hefur verðlagt aflaheimildir innan þeirra girðinga sem við höfum reist.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um tekjutap ríkissjóðs miðað við aflaverðmæti sem skiptir um hendur í dag (Forseti hringir.) verður ríkissjóður ekki fyrir neinu tekjutapi miðað við núverandi veiðigjöld af þessu. Mér þætti það mjög ólíklegt.