149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:56]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um veiðigjald. Ég legg ekki í vana minn að hefja ræður mínar á að tiltaka hvaða mál við erum að ræða. Ég hef hingað til gert ráð fyrir að hv. þingmenn átti sig á því, en mér finnst mikilvægt að ítreka það hér því að stór hluti umræðunnar sem farið hefur fram hér í dag, ágæt sem hún er, hefur ekki snúist um veiðigjald heldur fiskveiðistjórnarkerfið. Að sjálfsögðu er skylt skeggið hökunni, en engu að síður er þetta ekki sami hluturinn.

Tilefni þessarar lagasetningar og frumvarps sem liggur hér fyrir er að um áramótin rennur út sú framlenging sem gerð var á veiðigjöldum í vor og verði ekkert að gert verða engin veiðigjöld innheimt á næsta ári þannig að við þurfum að gera eitthvað. Spurningin er þá: Hvað viljum við gera? Til hversu langs tíma? Hvernig viljum við gera þetta allt saman? Við höfum, nokkur okkar, rætt um hvernig sátt um þetta fyrirkomulag verði best náð. Ég ber þá von í brjósti að hér sé grundvöllur fyrir slíkri sátt en auðvitað er það einskis eins að fullyrða þar um, hvorki þingmanns né stjórnmálaflokks.

Ég geng út frá því í minni afstöðu til þess máls að eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum sé skýrt, það sé skýrt að þjóðin eigi auðlindir hafsins saman. Þess vegna lít ég á þetta frumvarp til laga um veiðigjald sem frumvarp til laga um það kerfi sem við viljum koma upp til að ákvarða hvernig greitt verði fyrir að fá að nýta þá auðlind.

Hver er grunnhugsunin í þeim efnum? Að mínu viti snýst þetta um jafnvægi. Þetta snýst í fyrsta lagi um að þjóðin fái réttláta hlutdeild í þeim verðmætum sem skapast vegna nýtingar auðlindar hennar. Á móti snýst þetta um að við getum rekið sjávarútveg sem er sjálfbær í merkingunni hvernig farið er með auðlindina og fiskstofnana en einnig rekstrarlega séð og líka sjálfbær þegar kemur að samfélaginu. Við gleymum því stundum að það eru þrjár stoðir undir sjálfbærni, efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg.

Fyrir mér snýst umræðan um veiðigjald um að finna jafnvægið þarna á milli, hvernig við tryggjum þetta markmið þegar kemur að sjávarútveginum, en um leið að þjóðin fái réttláta hlutdeild í verðmætunum sem skapast. Það er verkefnið eins og ég lít á það, að finna hvernig þessu jafnvægi verði best náð. Er þetta rétta leiðin? Ég ber von í brjósti um að þetta sé skynsamleg leið til þess. Það eru örugglega til margar aðrar leiðir, ég efast ekki um það, en ég tel að þessi tillaga sé skynsamleg til að ná fram þessu markmiði. Ég er sérstaklega ánægður með að t.d. er lögð sérstök áhersla á fjárfestingar í þessu og talað um hvata. Það eru hvatar til fjárfestinga í þeim búnaði og tækjum sem nýtast við það að sækja þessa auðlind. Það rímar vel við stefnu Vinstri grænna um að það eigi að stuðla að því að sjávarútvegur verði enn umhverfisvænni og sem umhverfisvænstur. Ég vil að við nýtum þessa hagrænu hvata í þá átt og að endurnýjun á búnaði verði sömuleiðis í þá átt.

Er 33%, sem er búið að segja að við ætlum að taka í veiðigjaldið af því sem eftir er eftir að reiknireglunni hefur verið beitt, hárrétt tala? Ég veit ekkert um það. Þetta er aldur Jesú Krists. Það segir okkur kannski eitthvað. Sumum finnst þetta heilög tala. Kannski getum við nýtt okkur það og horft til þess að kannski höfum við hitt á réttu töluna. Hvernig á að finna hana?

Hér er beitt þeirri aðferð að horfa tíu ár aftur í tímann. Ekki bara af því bara heldur t.d. vegna þess að á þessum tíu árum hafa fjölmargar aðferðir verið notaðar við útreikninga á veiðigjaldi. Á þessum árum hafa fjórar ríkisstjórnir setið með aðkomu mjög margra flokka. Þetta er nokkurn veginn meðaltal þeirra upphæða sem hafa innheimst á þessum tíma og raunar er þetta örlítið hærra en það. Hefði þessari aðferð verið beitt næstliðinn áratug hefðu innheimt veiðigjöld verið 0,5 milljörðum kr. meiri en þau voru.

Mér finnst þetta ágætistilraun til sátta.

Hér hafa margir talað um uppboðsleið, að þannig eigi að ákvarða veiðigjald. Ég er ekki viss um að ég samþykki að það sé veiðigjald sem þá er búið að koma á en það eru kannski orðsifjafræðilegar hártoganir sem skipta ekki öllu máli í dag. Ég er ekki heldur viss um að það sé endilega rétta leiðin þó að mér finnist sjálfsagt að fylgjast með hvernig fer. Ég átti orðastað um þessi mál áðan og mér finnst við oft horfa fram hjá því þegar við tölum um að markaðurinn eigi að ráða för að við erum búin að samþykkja að veiðiheimildir og sjávarútvegur séu ekki bara eins og hver önnur vara á markaði. Við erum búin að samþykkja að það þurfi að vera sérákvæði um eignarhald þjóðar á þessu, við erum búin að setja girðingar sem ég hef engan heyrt vera tilbúinn að falla frá, eins og með erlent eignarhald. Við erum með um þetta mjög umfangsmikla lagabálka og flókin kerfi sem ganga m.a. út á að deila til byggða sem sérstaklega þurfa á því að halda hluta af auðlindinni. Fyrir mér erum við löngu búin að samþykkja að þetta sé ekki bara eins og hver önnur vara á markaði. Þetta er ekki kók í dós. Þess vegna skil ég ekki þá sem tala um þetta eins og það sé bara hægt eins og hendi væri veifað að ná því þannig fram. Sjávarútvegur er líka hluti af byggðastefnu, samanber það sem hér hefur fram komið, að 5,3% af aflaheimildum fara í byggðakvóta.

Hver er grunnhugsunin í kerfinu? Ég er búinn að fara hér yfir það, hér er sett fram reikniformúla þar sem við ákvörðum hvað sé dregið frá og síðan eru tekin 33% inn í gjaldið af því sem eftir er. Í frumvarpinu er líka gengið út frá tvennu sem er lykilatriði. Það er að færa útreikninginn nær í tíma. Um það hélt ég að hefði verið pólitísk samstaða. Ég held að ég megi fullyrða að nánast allir viðurkenni að kerfið eins og það er í dag er bagalegt og fjölmargir hæstv. sjávarútvegsráðherrar hafa komið að því að reyna að finna leið til að færa þetta nær í tíma. Við höfum verið með nefndir að störfum til þess. Hér er lögð til leið um hvernig það verði gert. Hún er eins og allar mjög snjallar leiðir í grunninn afskaplega einföld og mun nýtast við það kerfi sem við höfum byggt okkur upp sem samfélag til að innheimta skatta, nýtast við innskiluð gögn til ríkisskattstjóra. Þar koma einnig inn í gögn frá Fiskistofu og þannig er fylgst með því eins nálægt rauntíma og hægt er hvert sé raunverulegt virði. Síðan tekur ríkið 33% með þeim formerkjum sem ég hef áður rakið, gjald fyrir að fá aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Þriðja stóra atriðið er svo afkomutenging. Það er sama marki brennt. Ég hef ekki vitað til annars en að við séum langflest, ef ekki öll, sem höfum tjáð okkur um þessi mál undanfarin ár fylgjandi því að þetta sé afkomutengt og að þegar vel gangi verði gjaldið meira en þegar verr gangi geti það lækkað.

Og þegar þessar tvær forsendur varðandi það að vera nær í tíma og afkomutengt eru settar saman og við horfum á það að við ætlum að koma þeim á verða að sjálfsögðu einhverjar breytingar á þeirri upphæð sem innheimtist þegar kerfinu er komið á, en eftir að þessu hefur verið komið á og með reiknireglunni þarf ekki að skipta sér af þessu neitt meira. Þá mallar þetta.

Hér hafa einhverjir hv. þingmenn talað eins og þetta sé tillaga um að hv. alþingismenn og stjórnmálamenn yfir höfuð eigi að vera með puttana í verðmyndun héðan í frá. Mér finnst þetta ótrúlega óábyrgur málflutningur, virðulegur forseti, því að þetta er fullkomin andstæða þess sem hér er lagt til í frumvarpinu. Eftir að þessari reglu hefur verið komið á, eftir að umsjón, útreikningum og eftirliti hefur verið komið til ríkisskattstjóra ásamt þeim stofnunum sem ég tiltók áðan er pólitíkin ekkert að skipta sér af þessu. Það tel ég mikinn kost.

Það er kannski ekki síst þess vegna sem ég ber þá von í brjósti sem ég kom inn á fyrr í ræðu minni að þetta geti raunverulega orðið grundvöllur að sátt um veiðigjald, hvernig eigi að innheimta það og hvert það á að vera. Síðan getum við haft alls kyns hugmyndir uppi um fiskveiðistjórnarkerfið í heild sinni. Einhver gæti haft þá hugmynd uppi að því ætti að gjörbreyta. Það gerist ekki á morgun og ekki fyrir áramótin, hygg ég að allir hér inni átti sig á. En á meðan það er eins og það er og meðan við samþykkjum að við ætlum að innheimta veiðigjöld þurfa að gilda lög um þau veiðigjöld. Þetta tel ég vera skynsamleg lög þegar kemur að veiðigjaldinu. Ýmislegt er það sem hefur verið nefnt í umræðunni sem hv. atvinnuveganefnd mun að sjálfsögðu setjast yfir og taka afstöðu til en í grunninn er þetta skynsamleg tillaga að sátt um þessi mál.