149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður hefur verið afar duglegur í dag að fara í andsvör við þingmenn og velta ýmsum spurningum upp og spá í það hvort þingmenn séu á réttri leið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann eins. Um er að ræða einhvers konar meðaltal, þau 33% sem þarna eru fundin út. Þetta er í rauninni bara það sama og hefur verið innheimt síðustu tíu árin samkvæmt frumvarpinu. Öll þessi ár, minnir mig, ég ætla ekki að fullyrða það en man ekki betur en að Vinstri græn hafi talað í þessum ræðustól öll þessi ár um að þetta væri allt of lágt gjald. Er hv. þingmaður sama sinnis, að 33% séu of lág tala og þurfi að hækka? Getur þingmaðurinn hugsað sér að hafa prósentuna öðruvísi fyrir suma útgerðarflokka? Getur þingmaðurinn hugsað sér að hafa hana breytilega eftir landsvæðum eða byggðarlögum, að 33% gildi ekki fyrir alla?

Hv. þingmaður var ásamt þeim er hér stendur á fundi í október 2017, held ég að það hafi verið, þar sem við vorum spurð, fulltrúar flokkanna, út í sjávarútvegsstefnu flokkanna. Þar kom fram hjá hv. þingmanni að Vinstri grænir vildu innkalla allar aflaheimildir og úthluta þeim upp á nýtt. Nú er hér ekki til umræðu fiskveiðistjórnarkerfið sjálft en hv. þingmaður sagði á þeim fundi að það ætti að innkalla þetta allt saman og úthluta eftir ákveðnu fyrirkomulagi, einn þriðji ætti að fara á leigumarkað, einn þriðji í byggðafestukvóta og einn þriðji til útgerða samkvæmt hóflegu gjaldi. Hvaða hóflega gjald voru Vinstri græn með í huga á þessum tíma? Er þetta hóflegt gjald? Mér finnst vel í lagt að rukka sjávarútveginn einan atvinnugreina (Forseti hringir.) sem nýta auðlindir um 6.000 millj. kr. eða hvað þetta verður.