149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Ég held að hér séu hreinlega að verða ákveðin tímamót í umfjöllun um veiðigjöld þegar einn af gömlu flokkunum, einn af þeim stjórnmálaflokkum sem verið hafa á Alþingi og talað hvað mest um að útgerðin, sér í lagi stórútgerðin reyndar, borgi of lítið fyrir afnot af auðlindinni, er kominn með það í stefnu sína að um þetta geti verið sátt, að þarna sé sáttin, að 33% af reiknuðum stofni séu það sem menn geti sæst á og eigi bara að vera friður og ró um. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi.

Þá ber að fagna því, held ég, a.m.k. við sem höfum áhyggjur af því að útgerðin sé að greiða jafnvel aðeins of mikið í veiðigjöld. En mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í eitt sem kom fram í máli hans á þingi 2. febrúar 2017. Þá var hv. þingmaður í andsvari við annan þingmann og sagði hreinlega að hann velti því upp hvort skoða ætti sérálag á stórar og vel stæðar útgerðir. Það kom fram í orðum þingmannsins þá. Ef þingmaðurinn er orðinn sáttur við 33%, að það sé sú tala sem allir eigi bara að sætta sig við, er hann þá ekki lengur þeirrar skoðunar að það komi til greina að setja sérstakt álag á stórútgerðina og vel stæðar útgerðir? Það er eitthvert huglægt atriði hversu vel stæðar útgerðir eru.

Svo langar mig, ef hv. þingmaður hefur tíma til, að hann svari því sem var ósvarað áðan.