149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:27]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Við höfum talað núna lengi dags um þetta frumvarp til laga um veiðigjald. Við höfum mest fjallað um það sem frumvarpið fjallar ekki um, þ.e. hér hefur mest verið rætt um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft, uppboðsleiðina, aðrar hugsanlegar leiðir til að innheimta gjald, en minnst um frumvarpið. Þeir sem þó á annað borð hafa tjáð sig um frumvarpið hafa flestir efnislega ekki gert miklar athugasemdir við það, enda held ég að frumvarpið sjálft sé að allra mati — ég hef heyrt frá sjómönnum, útgerðarmönnum og nánast öllum sem málið varðar eiginlega — til mikilla bóta frá því sem verið hefur. Það eru margar ástæður fyrir því. Það gefur raunsannari mynd af afkomu útgerðarinnar. Það færir afkomuútreikninginn nær í tíma og svarar eiginlega öllum kröfum miklu betur en núverandi fyrirkomulag gerir.

Með öðrum orðum held ég að það sé samdóma álit allra sem hafa tjáð sig um málið, bæði hér inni og úti í samfélaginu, að þetta frumvarp sé til mikilla bóta frá því sem verið hefur.

Hins vegar hefur mikið verið fjallað um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft. Eigum við að hafa þetta með þeim hætti sem við höfum í dag? Þó hafa menn kannski ekki velt fyrir sér grundvallarspurningunni varðandi þetta fiskveiðistjórnarkerfi og innheimtu á gjaldi fyrir afnot af auðlindinni. Grundvallarspurning er kannski: Á sjávarútvegurinn einn atvinnugreina á Íslandi að greiða fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar? Það er varla mikil sanngirni í því. Aðrar atvinnugreinar eru ekki að gera þetta.

Það má taka dálítið kostulegt dæmi um afnot af náttúrufegurð á Íslandi. Ég hef gjarnan tekið það dæmi af því að það var James Bond mynd sem kom Íslendingum í skilning um hvaða verðmæti eru falin í Jökulsárlóni. Menn óku gjarnan þarna fram hjá áður en þeir sáu hvað þetta var hrikaleg náttúrufegurð. Sennilega eru afnot af náttúrufegurð í bíómynd einhver mest takmarkaða auðlind sem hægt er að hugsa sér sem þýðir að notkunin á Jökulsárlóni í James Bond myndinni mun hafa það í för með sér að Jökulsárlón verður ekki notað í aðra svokallaða A-bíómynd fyrr en James Bond myndin er fallin í gleymsku.

Einskiptisnotkun í stórri bíómynd þýðir með öðrum orðum að ekki er hægt að nota Jökulsárlón aftur nema þá í B-myndir og C-myndir. Þetta hef ég eftir frægum kvikmyndaleikstjóra. Hafi einhver fengið afnot af takmarkaðri auðlind — og það var ekki bara það að hann greiddi ekkert fyrir afnotin, hann fékk greitt fyrir að nota auðlindina. Íslenska ríkið greiddi honum peninga í formi endurgreiðslu á virðisaukaskatti og alls konar gjöldum fyrir að nota Jökulsárlón í bíómynd sem þýðir að það verður ekki notað aftur í sama tilgangi í bráð .

Er þetta nóg? Er verið að borga nóg í veiðigjöld? Eru afnotagjöldin af auðlindinni nógu há?

Sveitungum mínum í Vestmannaeyjum finnst þetta nógu hátt. Þar eru álögð veiðigjöld á þessu ári meira en 1 milljarður og hafa þá tvöfaldast frá fyrra ári. Þetta jafngildir um 240.000 kr. á hvert mannsbarn í Vestmannaeyjum. Mörgum í Eyjum finnst að þessir peningar væru t.d. betur komnir þar en hjá ríkinu.

Úr því að við erum að tala um fiskveiðistjórnarkerfið held ég að meira hafi verið talað um það en frumvarpið um veiðigjald. Þá held ég að þetta fiskveiðistjórnarkerfi uppfylli 100% tvær af þremur meginkröfum sem verður að gera til þessa kerfis. Í fyrsta lagi er sjálfbær nýting á auðlindinni. Þetta fiskveiðistjórnarkerfi hefur tryggt það, eftir því sem við best höfum vit til, að nýtingin á auðlindinni er sjálfbær. Það kom fram í ræðum þingmanna fyrr í dag með hvaða hætti t.d. veiðiþolið á þorskstofninum hefur aukist síðan þetta kerfi var sett á. Það er hægt að taka tegund eftir tegund. Kerfið tryggir að svo miklu leyti sem við höfum vit á sjálfbæra nýtingu á þessari auðlind. Þá er fyrsta skilyrðið uppfyllt.

Annað skilyrðið er að hámarka afrakstur þjóðarinnar í heild af nýtingunni á þessari auðlind. Ég hygg að því megi slá föstu að þetta kerfi hafi tryggt okkur arðbærasta sjávarútveg sem við þekkjum til, a.m.k. í okkar heimshluta. Síðast þegar ég leit á það tryggði sjávarútvegurinn ríkinu, opinberum aðilum, hærri heildarskatttekjur en t.d. ferðaþjónustan sem þó er komin langt fram úr sjávarútveginum í veltu. Með öðrum orðum er þá væntanlega engin atvinnugrein á Íslandi sem hefur stærra skattspor, eins og það heitir á því máli sem er notað til að mæla þetta, en sjávarútvegurinn. Ofan á öll venjuleg gjöld sem allar aðrar atvinnugreinar greiða kemur veiðigjaldið ofan á það sem sjávarútvegurinn einn greiðir.

Talsvert hefur verið talað um að koma á uppboðskerfi í sambandi við úthlutun eða afgjald fyrir notkun á auðlindinni. Okkur Sjálfstæðismönnum er t.d. núið því talsvert um nasir að við séum talsmenn þess að vilja frelsi í viðskiptum, að við séum tregir í taumi þegar kemur að þessu uppboðskerfi í sjávarútvegi. Ég skal bara viðurkenna hér að ég sé ekki annað í prinsippinu sem grundvallaraðferð til að mæla verðmæti hlutanna almennt en að þá sé frjáls markaður með uppboði sem myndi mynda verð á þessari auðlind. Það væri ákveðin fegurð fólgin í því að taka bara hreinstefnuna í því, láta markaðinn ráða þessu fullkomlega, en þeir sem tala hér fyrir uppboðsleiðinni byrja strax að tala um alls konar girðingar, alls konar takmörk og alls konar skilyrði af hálfu eigandans sem býður þetta út til að þóknast pólitískum sjónarmiðum í þessu máli, samfélagslegum sjónarmiðum sem eru fullkomlega réttlætanleg.

Þá verða menn nefnilega að hafa í huga að við hverja girðingu minnkar í leiðinni fegurðin í aðferðinni við að bjóða þetta út. Við hverja girðingu sem er sett upp minnkar frelsið. Við hverja girðingu sem sett er upp þrengist frjálsi markaðurinn og við lækkum það sem eigandinn fær í sinn hlut þegar hann býður út. Þess vegna verður að halda talsmönnum þessarar leiðar við alls konar spurningar sem þeir komast ekki hjá að svara. Hvar á að setja þessar girðingar? Eru þær landfræðilegar? Eftir svæðum? Má ekki vera meira en ákveðinn hluti af heildarkvótanum á þessu svæði, í þessu bæjarfélagi, sveitarfélagi? Á að gera það eftir tegundum? Á að gera það eftir stærð fyrirtækja? Einhver nefndi að það ætti að hafa sömu stærðarmörk á þessu, að enginn megi bjóða í meira en x prósent af kvótanum, þá væntanlega kannski í hverri tegund.

Við hverja svona skilyrðingu minnkar fegurðin. Þá minnkar markaðurinn. Endapunkturinn í svona kerfi er að það verður búið að setja upp svo margar girðingar til að þjóna alls konar pólitískum sjónarmiðum, byggðapólitískum og samþjöppunarsjónarmiðum, að það verður ekkert eftir af frelsinu. Þá fyrst breytist þetta í hreina pólitíska úthlutun þar sem búið verður að moka inn svo mörgum skilyrðingum að ekkert verður eftir.

Ég sagði í andsvari fyrr í dag að það er örugglega rétt, ef menn hugsa til svo skamms tíma að þeir ætli bara að hámarka afrakstur ríkisins af þessu einu sinni, að best sé að bjóða þetta allt út. Ég er alveg viss um að það ár, fyrsta útboðsárið, myndi tryggja ríkinu talsvert meiri tekjur en veiðigjaldið gerir samkvæmt þeirri nálgun sem hér er. Það yrði farið að falla á fegurð þessa kerfis strax að loknu fyrsta útboðinu.

Ef við ætlum að halda í fegurðina við útboðið er útboðið bara skilyrðislaust, annars eru menn farnir að setja miklu strangari pólitísk skilyrði og þá fyrst eru menn komnir út í hreina pólitíska úthlutun á veiðiheimildum. Þá er lítið orðið eftir af frjálsa markaðnum sem menn hafa haldið á lofti í dag.

Ég held að niðurstaða þessarar umræðu í dag sé sú að veiðigjaldafrumvarpið sjálft sem hér er til afgreiðslu sé gott. Enginn af ræðumönnum í dag hefur komið með efnislegar athugasemdir við það sem eru þess eðlis að þær eyðileggi megininntak þess. Ég er ekkert sérlega hrifnæmur maður en það kom sjálfum mér á óvart þegar ég sá þetta frumvarp fyrst hversu rökrétt það er og hreint í nálgun sinni á þetta flókna viðfangsefni. Það getur vel verið að á því megi finna einhverja agnúa sem koma þá fram í umfjöllun nefndarinnar þegar hún hlustar á hagsmunaaðila sem hafa komið að þessu, en aðalatriðið er að ég hef ekki merkt það á þeim ræðumönnum sem hafa haldið sig við innihald frumvarpsins — við getum tekið umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft — að þær röksemdir sem menn hafa fært fram í dag gegn frumvarpinu sjálfu séu þess eðlis að þær kollvarpi neinum þeim meginsjónarmiðum sem liggja að baki frumvarpinu eins og það kemur fyrir.

Ég hef heyrt í mörgum hagsmunaaðilum og ítreka það, sjómönnum og alls konar hagaðilum eins og það heitir á leiðinlegri stofnanaíslensku, og allir sem einn, líka þeir sem hafa talað hér í dag, eru sammála um að fyrirkomulaginu á þessum veiðigjöldum sé miklu betur fyrir komið samkvæmt því frumvarpi sem hér er en gildandi lögum.

Einstaka ræðumenn hafa nefnt í dag að þetta fæli í sér lækkun á veiðigjaldinu. Það er bara ekki svo. Líklega skilar þetta á þessu og næsta ári minna veiðigjaldi en gamla kerfið hefði gert. Það var reiknaður út tæpur áratugur og hinni nýju aðferð beitt á það tæplega tíu ára tímabil, ef ég man rétt, og í ljós kom að veiðigjöldin hefðu á þeim tæpa áratug orðið þau sömu, meira að segja heldur meiri ef ég man rétt, en samkvæmt gamla kerfinu og því sem raunin var.

Nei, kosturinn við þetta er sá að þetta gefur betri mynd af raunverulegri afkomu og er andlag fyrir miklu betri mynd af þeirri raunverulegu afkomu sem atvinnugreinin býr við en núverandi kerfi. Það er út af fyrir sig ánægjulegt að hafa tekið þátt í þessari umræðu í dag sem snýr meira að fiskveiðistjórnarkerfinu en því frumvarpi sem hér er til umræðu.

Ég vil ljúka máli mínu hér með því að staðhæfa að öll viðbrögðin við hinu eiginlega frumvarpi mæla með því að það verði afgreitt svo gott sem óbreytt eins og ég sé þetta fyrir mér. Það kunna að vera einhverjir agnúar á þessu sem koma þá fram við umfjöllun nefndarinnar, en þetta er til mikilla bóta.

Menn ættu svo að taka umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft. Ef það er einhver leið og ef það er einhver samanburður á þeim kerfum sem við höfum verið að ræða hér um í dag og bera saman ættum við síst af öllu á Íslandi að taka Færeyinga, frændur okkar, til fyrirmyndar um það hvernig við stýrum nýtingunni á þessari auðlind.