149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Í fyrra andsvari mínu langar mig aðeins að nálgast það sem kom fram í upphafi ræðu hv. þingmanns og reyndar líka síðar, að hér hefðu margir frekar rætt fiskveiðistjórnarkerfið en efnislegt inntak veiðigjaldafrumvarpsins sem hér er til umræðu. Ég er svo næm að ég greindi ákveðna gagnrýni á það.

Ég velti fyrir mér, og þetta er ansi nátengt: Ef þingmenn höfðu hug á að koma hingað upp og gagnrýna það sem lagt er til grundvallar í sjálfu gjaldtökufrumvarpinu — þ.e. hvernig kostnaðurinn er reiknaður, að hér er ekki um tímabundna samninga að ræða, sem hefur mikil áhrif, hvernig brugðist var við mun á botnfisksafla og uppsjávarafla með því að velja þessa 10% skölun upp, hvernig brugðist var við, í „ad hoc“-nálgun, þeirri áskorun að greina á milli veiða og vinnslu — og nálgast það með hugmyndum og nýjum tillögum heitir það þá árás á fiskveiðistjórnarkerfið?

Hvernig ræðum við þetta þá? Hvernig hefði hv. þingmaður nálgast viðfangsefnið ef hann hefði raunverulega viljað gagnrýna eða koma með breytingar? Þetta er svo nátengt og það er frekar ódýrt — og ég er ekki að álasa hv. þingmanni frekar en öðrum — að hafna gagnrýninni umræðu um þetta af því að menn séu þá alltaf farnir út í hitt. Ef það er svo skulum við bara ræða þetta saman, ef það er engin leið að skilja á milli. Ég hefði áhuga á að vita hvernig hv. þingmaður hefði nálgast þetta.