149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:44]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var alls ekki gagnrýni hjá mér, þetta var alls ekki hugsað sem svo. Ég var þvert á móti að segja að sá farvegur sem umræðan í dag hefur farið í sýndi mér að frumvarpið sjálft, veiðigjaldaparturinn af frumvarpinu sjálfu, væri ekki sérstaklega hugstætt fólki. Ég skil það sem hv. þingmaður sagði hér áðan varðandi tæknilegar útfærslur, tilfærslur milli veiða og vinnslu, hvernig uppsjávarparturinn er meðhöndlaður öðruvísi en botnfiskurinn. Ég var að reyna að draga það saman — mér hefur þá ekki tekist það betur en svo — að gagnrýnin í dag beindist meira að fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að ræða það og finnst meira gaman að ræða það en veiðigjaldafrumvarpið sjálft. Ég var einfaldlega að benda á að þetta kynni að vera vísbending um að frumvarpið sem er hér til umfjöllunar sé ekki sá ásteytingarsteinn milli flokkanna, eða stjórnmálamanna sem talað hafa í dag hér á þinginu, sem lengd umræðunnar og ræðufjöldi gefur mönnum tilefni til að halda. Ég held með öðrum orðum að það hafi verið staðfesting á því að í öllum aðalatriðum er þetta gott frumvarp. Svo skulum við ræða um fiskveiðistjórnarkerfið alveg til þrautar.