149. löggjafarþing — 13. fundur,  9. okt. 2018.

vinnumarkaðsmál.

[13:39]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrirspurnina. Mér er mjög í minni umræða sem hv. þingmaður var með um þau mál fyrr á þessu ári. Í þeirri umræðu var sérstaklega rætt frumvarp um starfsmannaleigur og keðjuábyrgð og hert viðurlög í því efni. Það frumvarp, frá því að sú umræða átti sér stað, hefur síðan komið inn í þingið og varð að lögum síðasta vor. Með þeim hertum við mjög á öllum málaflokknum og færðum Vinnumálastofnun auknar heimildir sem hún hefur þegar byrjað að nýta. Það sem af er þessu ári hefur Vinnumálastofnun t.d. farið í fleiri eftirlitsferðir en hún gerði allt árið í fyrra. Við sjáum því þegar sókn í þeim málum.

Hins vegar er alveg rétt hjá hv. þingmanni að betur má ef duga skal. Þess vegna höfum við m.a. boðað frumvarp sem er á þingmálaskrá og á að koma í næsta mánuði, að ég held, sem varðar það sem hv. þingmaður kom inn á um húsaleigu og hvernig ráðningarsamningar og tengslin eru gagnvart húsaleigu. Það höfum við séð í umræðunum um þau mál.

Við höfum líka boðað að í gang sé að fara vinna á milli allra aðila sem að því koma, ekki aðeins á vinnumarkaði, ekki bara Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun, heldur líka samtök á vinnumarkaði auk lögreglunnar og ríkisskattstjóra. Fara á í undirbúning og samþættar aðgerðir, bæði samþættar aðgerðir sem allir munu koma að, aðilarnir í sameiningu, og eins til að ræða frekari lagabreytingartillögur og möguleg viðurlög í þá veru. Ég á því ekki von á öðru en að við munum sjá aðgerðir í þá átt þegar þeirri vinnu vindur fram. En það er unnið í gríðarlega góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins og sérstaklega verkalýðshreyfinguna. Við höfum lagt áherslu á það og munum gera það hér eftir sem hingað til.