149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

kostir og gallar aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

159. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hygg að flutningsmenn málsins hafi fengið þau svör hjá skrifstofu þingsins að af þingtæknilegum ástæðum væri rétt að gera þetta svona og alveg ástæðulaust að vera að búa til pólitískan ágreining eða gera veður út af því.

Ég spurðist fyrir þegar ég frétti af því og fékk þau svör að tryggara þætti að halda lífi í skýrslubeiðninni á þennan hátt og ég held að gert hafi verið eins og eðlilegt þótti við slíkar aðstæður. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að þegar fyrir liggur af hálfu viðkomandi ráðherra, hvort sem það er hæstv. utanríkisráðherra eins og í þessu tilviki eða hæstv. forsætisráðherra í öðru tilviki, að mál er í fullri vinnslu og góðum farvegi ætti frekari aðkoma þingsins að skýrslubeiðninni að vera óþörf. Ég held hins vegar að ef þingtæknileg atriði eða þingsköp gera þá kröfu að við samþykkjum það formlega þurfum við ekki að gera pólitískt veður út af því eða eigna mönnum einhverjar pólitískar meiningar, sem mér heyrðist sumir hv. þingmenn gera áðan.