149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lagasetning sem þessi er ekki óafturkræf. Það þarf bara að breyta henni með lögum ef reynslan af henni verður ekki nægilega góð.

En varðandi þá tillögu eða hugmynd sem úrskurðarnefndin kemur fram með, að ráðherrann fresti réttaráhrifunum, þá nefndi ég í andsvari við hv. þm. Loga Má Einarsson áðan að allnokkrir meinbugir eru á því máli að mati þeirra lögfræðinga sem við ráðguðumst við. Í fyrsta lagi hafa þeir ekki verið sammála um hvort um stjórnvaldsákvörðun væri að ræða sem væri kæranleg til ráðherra, þ.e. niðurstaða úrskurðarnefndarinnar. Í öðru lagi er ljóst að sú leið myndi ekki leysa út þeim atvikum sem hafa komið upp og munu koma upp. Áfram yrði eini möguleiki Matvælastofnunar að stöðva starfsemi. Í þriðja lagi telja þeir mjög óljóst á hvaða grunni ráðherrann ætti að fresta réttaráhrifum þeirrar ákvörðunar í óbreyttu lagaumhverfi, enda skýrt samkvæmt núgildandi lögum að stöðva beri starfsemi.

Þetta eru röksemdirnar sem lögfræðingar og lögspekingar mínir hafa fært fram og ég tek heils hugar undir.