149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:17]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil eindregið taka undir þessa ábendingu og ósk hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur varðandi það að hafa hæstv. umhverfisráðherra hér í salnum; ef við ætlum að leysa málið þannig að skýr skilaboð berist út í samfélagið verðum við að fá svör, og það skýr svör, frá umhverfisráðherra.

Það er rétt að geta þess að ef atvinnuveganefnd fundar hér síðar í dag hef ég líka óskað eftir að umhverfisráðherra mæti á fund nefndarinnar. Ég endurskoða það að sjálfsögðu ef hann verður búinn að svara skýrt hér í salnum á undan.

Það þarf líka að fá svör um það frá hæstv. sjávarútvegsráðherra og í raun forseta þingsins hvort keyra eigi þetta mál í gegn í dag. Ef svo er þá er alveg ljóst að endurskoða þarf dagskrá þingsins. Það er engan veginn ásættanlegt að við sem erum í atvinnuveganefnd og höfum undirbúið ræður varðandi samgönguáætlun, það risastóra hagsmunamál, séum að vinna að fiskeldismálum á sama tíma. Það er náttúrlega algerlega útilokað.