149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[15:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi það hvort ég telji að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki umboð. Það er enginn efi í mínum huga að hún hefur umboð til þess að fjalla um og úrskurða í þeim málum sem til hennar fara. En það sem ég var að undirstrika var að eftir niðurstöðu nefndarinnar bæri nefndin sem slík enga ábyrgð á því hvað gæti gerst í kjölfarið eins og við erum að horfa fram á hér í dag. Fyrirtækin geta staðið frammi fyrir óafturkræfum skaða, byggðin og fólkið. Þá kemur til kasta lýðræðislega kjörins ráðherra, þingmanns, að mæta því. Í dag hefur hann engin verkfæri til þess að fresta réttaráhrifum svo hægt sé að reyna að lagfæra regluverkið hjá stjórnsýslunni.

Varðandi beiðni um að fá umhverfis- og samgöngunefnd til að fjalla um þetta mál myndi ég bara meta það og óska eftir skýrum rökstuðningi fyrir því að sú nefnd ætti að fjalla um þetta mál sem heyrir ekki undir hana. Þetta mál snýr ekki að umhverfismálum heldur formgalla í ferlinu.

Stjórnvöld bera ábyrgð á þessum óskýrleika í leyfisferlinu sem úrskurðarnefndin byggði á. Þess vegna er það á ábyrgð stjórnvalda að mæta þessum annmörkum. Það er verið að gera með því að heimila ráðherra að hafa leyfi, heimild til þess að fresta réttaráhrifum tímabundið meðan fyrirtækjum er gefinn kostur á að bæta úr því sem (Forseti hringir.) talið er að þurfi að gera.