149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[16:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við fáum á fund okkar í nefndinni á eftir stjórnsýslufræðinga til að fjalla um ýmis álitaefni eins og hv. þingmaður kemur inn á. Ég get vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hefur bent á þetta varðandi úrskurðarnefndirnar. Um þetta hefur verið fjallað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar hefur nefndin tekið undir með umboðsmanni Alþingis, að ekki sé til stjórnsýsla án ábyrgðar og varhugavert sé að starfsemi slíkrar úrskurðarnefndar sé án eftirlits. Nefndin taldi því ríka þörf á að fram færi heildstæð úttekt á því hjá stjórnvöldum á hvaða sviðum væri eðlilegt að hafa sjálfstæðar úrskurðarnefndir, bæði út frá þjónustu borgarana, hagkvæmni og skilvirkni en einnig út frá ábyrgð og eftirliti.

Það sem ég er að vísa til er að á endanum er ábyrgðin hjá stjórnvöldum hverju sinni. Það er það sem við erum að tala um núna, að við teljum það mjög málefnalegt og að við gætum meðalhófs, að ráðherra fái þessa almennu heimild til að fresta réttaráhrifum þegar mál eru þess eðlis, eins og ég tel þetta mál vera, að þetta séu fyrst og fremst formgallar sem fella niður starfsleyfin og rekstrarleyfið, og þá geti ráðherra veitt svigrúm, veitt fyrirtækjunum skjól. Það er allra hagur að þau verðmæti sem eru þar undir fari ekki forgörðum og líka getur ríkið orðið skaðabótaskylt svo háum fjárhæðum nemur ef við grípum ekki inn í.

Við fáum á fund okkar stjórnsýslufræðinga til að vega og meta fyrirliggjandi frumvarp, hvort ekki sé verið að tala um almenna löggjöf (Forseti hringir.) sem nái þá til allra en sé ekki sérsniðin fyrir einstaka fyrirtæki.