149. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2018.

fiskeldi.

189. mál
[17:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það sem er öðruvísi í þessu ákvæði er að það er mjög skýrt sem segir í lögum um úrskurðarnefnd umhverfismála og rétt umhverfisráðherra. Farið var mjög gaumgæfilega yfir það í greinargerð sem fylgdi með þáverandi frumvarpi en það finnst mér ekki gert nægilega vel hér. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að segja mér að ég eigi ekki að vanda mig í málinu. Ég hef mínar efasemdir. Ég hef ekki efasemdir um að leysa þurfi málið og ég skil að hv. þingmaður vilji helst reyna að stilla því upp og gera málið tortryggilegt og að hann tali fyrir sinn hóp fyrir vestan. Það er allt mjög skiljanlegt. Svoleiðis er það fyrir okkur þingmenn sem erum fulltrúar ákveðinna svæða. Þannig gengur það fyrir sig.

En ég er að biðja um að við fáum svigrúm til að fara yfir lögmætar athugasemdir sem hafa komið fram, m.a. á fundi nefndarinnar í morgun sem hv. þingmaður sat ekki, í ljósi þeirra svara sem hæstv. sjávarútvegsráðherra kom með í dag. Mér finnst þau ekki skýra málið nægilega vel. Við munum fara yfir það. Það getur vel verið að á endanum komi fram að þetta sé skynsamlegasta lausnin. Ég hef bara mínar efasemdir og það er sama með hæstv. umhverfisráðherra.

Ég furða mig á því að hv. þm. Teitur Björn Einarsson skuli ekki hafa verulegar áhyggjur af því að ekki komi skýr svör frá ráðherra Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Menn fara í kringum málið eins og köttur í kringum heitan graut. Það vita allir að þetta mál er þeim erfitt, nema kannski einum þingmanni Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ég hefði meiri áhyggjur af því að ríkisstjórnin sendi frá sér misvísandi skilaboð en því að þingið vilji vanda sig þegar kemur að því að breyta og vera með skyndilegt inngrip í löggjöf sem skiptir okkur máli til framtíðar. Það er greininni fyrir bestu að við vöndum okkur og það eru hagsmunir allra að við vöndum okkur.