149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

námskeið um uppeldi barna.

[10:45]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Námskeiðin sem um ræðir, og eru í lýðheilsustefnu, hafa verið við lýði innan heilsugæslunnar í 15–20 ár. Það eina sem þarf að gera er að koma þeim á úti um allt land. Uppeldi barna og ungmenna er áhyggjuefni. Við sjáum það næstum daglega á yfirlýsingum í blöðum og af fréttum sem draga upp sláandi mynd af mannlífi sem þarf að bæta. Sjá má fyrirsagnir af þessu tagi: Týndu börnin í verra ástandi en áður. Aldrei fleiri mál tengd heimilisofbeldi. Tugir gerenda leita til Heimilisfriðar. Vitnað er í geranda þar sem fram kemur að hann hefur kannski einu sinni beitt ofbeldi en vill ekki vera eins og mamma sín eða pabbi. Í gær sagði RÚV svo frá rannsókn sem benti til þess að ofbeldi, vanræksla og misnotkun gæti haft áhrif á sjúkdóma síðar á lífsleiðinni.

Þessar fréttir segja sína sögu um að bregðast þurfi við og koma í veg fyrir að börn og unglingar lendi í erfiðleikum á lífsleiðinni.

Það er margt sem getur haft áhrif á að börn og ungmenni leiðist ekki út í neyslu fíkniefna og fíknilyfja og rétt að undirstrika það. (Forseti hringir.) Það þurfa allir að koma saman og hjálpast að við að vinna að því verkefni. Vegna þess hef ég undirbúið málþing (Forseti hringir.) nk. mánudagskvöld í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar þar sem yfirskriftin er: Forðum ungmennum frá fíkniefnum. — Hvað getum við gert? Hvað getum við lært?

Verið velkomin.