149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[13:45]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni gott svar. Svo virðist sem við séum á svipuðum nótum um það hvernig við nálgumst verkefnið sem við þurfum að takast á við. Ég heyri að í þinginu er mögulega að nást ágæt samstaða um að fara að skoða nánar samvinnuleiðina. Þá er einboðið að þingið fari í samvinnu með öðrum aðilum og viðeigandi stjórnvöldum við að útfæra það nánar.

Mig langar að staldra aðeins við seinna atriðið, sem ég kom inn á í fyrra andsvari, sem er eignir ríkisins. Telur hv. þingmaður skynsamlegt að ráðast í skoðun á efnahagsreikningi ríkisins með það fyrir augum hvaða eignir það eru sem hægt er að selja með skynsömum og ábyrgum hætti til að svigrúm skapist fyrir ríkið til að ráðast í arðbærar samgönguframkvæmdir? Það verður að hafa í huga í því samhengi og líka gæta að hinum hagrænu áhrifum af slíkum framkvæmdum. Það má ekki selja þær eignir sem um ræðir, ég nefni sérstaklega viðskiptabanka, þannig að ekki sé staðið vel að slíku heldur verður það að vera skynsamlegt. Horfa verður til hinna hagrænu þátta sem geta verið þensluhvetjandi eða mynda framleiðsluspennu í hagkerfinu.

Herra forseti. Mig langar að fá að heyra örlítið betur frá hv. þingmanni hvernig hann sér slíka vinnu fara fram, til að mynda innan fjárlaganefndar, sem samræmist umfjölluninni sem á sér stað um samgönguáætlun.