149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér þykir þetta mál einstaklega áhugavert og lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem svarað var 2. maí sl. þar sem ég spurði hvort til greina kæmi að nota evrópska vegabréfið fyrir gæludýr. Þá, eins og nú, kom fram í svari hæstv. ráðherra að fyrir dyrum stæði áhættumat. Ráðherra sagði að þetta verkefni væri stærra og viðameira en upphaflega hafi verið áætlað.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að halda vel utan um það þannig að við fáum niðurstöðu og fáum þessa skýrslu.

Á sama tíma og ég tek undir að við eigum að sjálfsögðu að huga að heilbrigði og öryggi búfjárstofna okkar hafa margir bent á að reglur okkar eins og þær eru í dag séu fullstrangar og að hægt sé að fara bil beggja í þessu efni.

Ég segi bara: Ég hlakka til að fá þessa skýrslu í hendurnar og (Forseti hringir.) að við förum yfir hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar á fyrirkomulaginu eins og það er núna.