149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur spunnist. Ég vil í lokin leggja áherslu á að þær ákvarðanir sem kunna að verða teknar um breytingar á því fyrirkomulagi sem er í dag verða að byggja á vinnu, tillögum, ráðleggingum okkar færustu vísindamanna með aðstoð þeirra sem þekkja vel til. Í því tilfelli sem hér um ræðir er það fyrrverandi yfirdýralæknir Danmerkur sem ég held að muni nálgast viðfangsefnið af nærgætni og hlutleysi vísindamannsins. Ég hef enga trú á öðru.

Það er alveg næg þekking hér innan lands til að rýna til gagns þær niðurstöður sem út úr þessu kunna að koma. Ég treysti því að regluverkið um þetta efni verði þannig úr garði gert að það geti stutt við þær áherslur sem við öll viljum halda í heiðri, þ.e. að verja landið fyrir nýjum sjúkdómum í dýrum. Ég reiði mig á sérfræðilega ráðgjöf í þeim efnum. Ég hef ekki vit á þeim ótalmörgu kimum sem þar er að finna. Til þess eru sérfræðingarnir að ráðleggja okkur og ég treysti þeim fullkomlega þegar þar að kemur.