149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:43]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir að vekja máls á þessu. Við erum komin langt frá þeim tíma þegar spurningin var hvort við fengjum að fylgjast með Marlboro-manninum með sígarettu í munni ríðandi um eyðilendur Arizona. Nú er aðgengi að alls kyns fíkniefnum og vímuefnum orðið allt annað en á þeim tíma. Það er orðið mikið og auðvelt með tilkomu netsins og þar er lítið spurt að aldri þeirra sem eftir því leita.

Ég ætlaði að tala kannski mest um það sem ég þekki best, þ.e. löggæsluna í þessum efnum, og segja ykkur frá því hvað það er sem ég á við þegar ég er að tala um sýnilega og almenna löggæslu, sífellt. Ég er að tala um að lögreglan hafi tíma og mannafla t.d. til að heimsækja skóla sem hún gerði hér áður fyrr, en öll lögreglulið voru með slíkar heimsóknir á sinni könnu, leikskólana og grunnskólana og tala við börnin og ræða þær hættur sem fram undan væru. Þetta var á tímabili fastur þáttur í starfsemi lögreglunnar.

Annað sem lögreglan getur ekki sinnt ef hún er fjársvelt er svokölluð frumkvæðisvinna. Hvað er það? Það er að lögreglumenn geti litið eftir t.d. viðskiptum með ólögleg vímuefni, litið eftir viðskiptum á netinu, að þeir hafi tíma til þess en séu ekki bara að sinna útköllum, lögreglan sé svokölluð útkallslögregla sem kemur bara þegar slökkva þarf elda sem þegar loga.

Ég ætlaði líka að nefna í lokin að ég ætla að óska eftir sérstakri umræðu um vanda ungra drengja (Forseti hringir.) og vil þakka hv. þm. Ingibjörgu Þórðardóttur sem kom inn á þetta rétt áðan. (Forseti hringir.) Ég vonast til að sú umræða verði von bráðar hér á þinginu.