149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:09]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér koma íslenskukennarar í röðum eins og bókaútgefendur og rithöfundar áðan. Ég er íslenskukennari í grunninn þó að ég gegni því starfi ekki akkúrat núna. Ég vil hins vegar taka undir þau skýru skilaboð sem menntamálaráðherra hefur ítrekað komið inn á í ræðustóli í umræðu um þetta frumvarp: Við erum bókaþjóð. Það er það sem við fáum að heyra. Það er sú sjálfsmynd sem við höfum. Hins vegar er að molna undan þeirri sjálfsmynd vegna þess bæði að bækur eru of dýrar, verðlag er of hátt, og það eru aðrir miðlar sem fólk sækir í.

Við getum hins vegar verið bókaþjóð þó svo að við séum ekki að lesa af pappír. Við getum lesið af tölvunni eða spjaldtölvunni eða hlustað á bækur. Ég á því láni að fagna að hafa alist upp við bóklestur. Ég man þær góðu stundir með móður minni þar sem við sátum saman og lásum og áttum notalega stund. Ég held að eitt af því sem þurfi að komast til skila sé hvað við getum átt góðar stundir með börnunum okkar við það að lesa eða hlusta saman á bókmenntir eða lesefni og síðan ræða það. Það er einmitt liður í að örva málþroska.

Eins og hv. þm. Ingibjörg Þórðardóttir kom inn á áðan getur orðaforði verið fátæklegur. Til þess að styrkja hann þurfum við að tala saman og lesa meira. Það er uppeldisliður bæði foreldra og skólakerfisins.

Það að vera bókaþjóð, eiga þann menningararf sem hefur fylgt okkur í gegnum aldirnar, er það sem við höfum verið stolt af. Þegar við förum til annarra landa og skoðum menningararf þeirra þjóða skoðum við kirkjur, hallir, málverk. Ein ástæðan fyrir því að Íslendingar fóru ekki að sinna myndlistinni fyrr en á síðari tímum var að okkur skorti efni og við byggðum ekki hallir vegna þess að við höfðum ekki efnivið, en við gátum skrifað á kálfskinnið og við gátum búið til blek. Þarna kemur fram þörf mannsins til þess að skapa. Stundum er umhverfið þannig að við þurfum að velja okkur formið.

Við erum komin í annað umhverfi en kálfskinnið eða pappírinn, nú erum við með netið, með tölvurnar. Það er ekkert síðra. Ég hef orðið vitni að því þar sem foreldri sagði við ungmenni sitt: Hættu nú að hanga í tölvunni og farðu frekar að lesa eitthvað. Þar kemur fram sá misskilningur að aðeins sé hægt að neyta þeirrar menningar á einn hátt. Við eigum að viðurkenna og fagna því ef málið lifir, hvort sem það er á pappír eða í tölvunni okkar.

En fyrst og fremst þarf málið að lifa í samræðu og samveru. Það skiptir mjög miklu máli.

Varðandi það að við heyrum unga fólkið okkar tala saman á erlendum tungumálum þá stöndum frammi fyrir breyttum heimi, frammi fyrir alþjóðavæðingu. Við eigum ekki að tala það niður heldur draga fram sérstöðu okkar sem þjóðar. Við eigum að vera stolt af málinu. Mér hefur verið tamt að vitna til skáldsins sem sagði: „En hefir nokkur heimsins þjóð hafnað tungu sinni“. Við þurfum að brýna það fyrir unga fólkinu okkar um leið og það hefur tök á öðrum tungumálum. Það þarf ekki að hafna því að viðhalda íslenskunni og varðveita hana og geyma hana til síðari tíma en við viljum helst ekki, þó svo að við verðum þá væntanlega búin að vera handan við móðuna miklu í árhundruð, að framtíðin upplifi að bókmenntirnar okkar séu lokuð bók og að sérstaka fræðinga þurfi til að lesa það sem við eigum í bókmenntum.

Mér dettur í hug gelískan sem er mjög fallegt mál og er þjóðarkríli, eins og annar hv. þingmaður talaði um áðan, sem á það tungumál og vill varðveita það. Þetta er tilraun okkar svo að við fáum ekki það ferli varðandi tungumálið. Mér finnst hún algerlega þess virði.

Varðandi hvað er boðið upp á get ég ekki annað en sagt að alveg rétt er að úrval bókmennta fyrir börn og unglinga er af skornari skammti í dag og ekki hefur verið eins mikill metnaður til að skrifa bækur fyrir börn og unglinga undanfarin ár og var áður fyrr. Ég ætla samt að benda á að til er fullt af bókmenntum sem er hægt að draga fram. Nú horfi ég í augun á rithöfundinum sem skrifaði Mín káta angist á sínum tíma, hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, og ég man eftir því þegar ég var að lesa hana hvað ég samsamaði mig að mörgu leyti því sem þar kom fram. Það er líka mikilvægt, að samsama sig því sem við erum að lesa á einhvern hátt. En auðvitað fræðumst við einnig og kynnumst nýju þótt við samsömum okkur ekki því sem við lesum.

Ég styð þetta frumvarp og vona að það nái fram að ganga.