149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:42]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla sannarlega ekki að fara að karpa við rithöfundinn um það hvernig bækur eru gefnar út. Ég þykist vita að hann þekki það öllu betur en ég sjálfur.

Mér finnst þetta einfaldlega áhugavert umræðu- og viðfangsefni. Ef við ætlum að styðja við íslenska tungu og íslenskt ritmál — sem má alveg færa góð rök fyrir að við þurfum að gera, þetta er agnarsmátt tungumál og við þurfum að fóstra það vel — hvar náum við bestum árangri? Ætlum við að styðja að efnið sé búið til, þá á ég við að einhver setjist niður og skrifi fallegan texta, styðja viðkomandi einstakling til þess, eða ætlum við að finna út úr því hvaða fyrirtæki sé best að styðja til að koma efninu einhvern veginn á framfæri?

Ég hefði persónulega meiri tilhneigingu til að styðja rithöfundinn en útgefandann. Ég held að það finni sér alltaf sína leið á því formi sem notendurnir sjálfir styðjast helst við. Ég get alveg tekið undir að æskilegt væri að sjá meira efni verða til í hljóðbókum. Það mun vafalítið skila sér þangað á endanum. Ég sakna þess mjög að sjá ekki miklu meira af íslenskum bókum á stafrænu formi miðað við allan þann aðgang sem maður hefur að erlendum bókmenntum.

Tæknin er löngu komin þangað að við þurfum ekki lengur að bíða eftir því að bók berist í bókabúð, hvað þá berist okkur í pósti frá bókaútgefanda. Flestar bækur eru einfaldlega orðnar aðgengilegar strax á stafrænu formi. Ég held að sú þróun muni halda áfram og þess vegna velti ég því upp. Mér finnst ekki sérkennilegt að horfa á þann vanda sem bókaútgefendur sjálfir eru í í því umbreytingarferli en ég hef nokkuð góða sannfæringu fyrir því að þessi stuðningur muni ekki breyta miklu þar um.