149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu.

[16:03]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni, fyrir að hefja umræðuna og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg. Markmið með því að laða beina erlenda fjárfestingu til landsins er m.a. að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og fá aukið fjármagn til uppbyggingar landsins til lengri tíma. Ég held hiklaust að við ættum að vera opin fyrir alþjóðlegu tengslaneti og hugviti og ekki bara horfa á fjármögnun í formi peninga.

Bein erlend fjárfesting getur verið lykill í hagvexti í ferðaþjónustu og sérlega á köldu svæðunum okkar. Brýnt er þó að passa upp á að unnið sé eftir lögum og reglum og að kerfið sé gagnsætt um styrki og ívilnanir. Einnig er mikilvægt að fjárfestingarverkefni stangist ekki á við áætlanir og stefnumótun svæða og að sjálfbærni í ferðaþjónustu sé ávallt höfð að leiðarljósi.