149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:15]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns. Hv. þingmaður er ekki einn um að sjá ágalla á því fyrirkomulagi sem við búum við og okkur er að sumu leyti giska þröngur stakkur skorinn.

Mig fýsir að vita afstöðu hv. þingmanns til þess hvort að það breyti eitthvað afstöðu hennar til þess sem hún ræðir hér og hefur auðvitað gert áður, þ.e. um möguleikana á því að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna, þau vandamál sem við er að glíma í Evrópu um þessar mundir, þær miklu hræringar sem þar eru. Við þekkjum Brexit, við þekkjum framkomu Evrópusambandsins við Breta í þeim málum, þar sem reynt er að gera þeim allt til miska. Og við þekkjum sömuleiðis framkomuna og meðferðina á Grikklandi þegar Grikkir rötuðu í vandræði. Er þetta í huga hv. þingmanns eftirsóknarverður vettvangur fyrir okkur?