149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

umferðarlög.

219. mál
[18:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða nokkur atriði í þessu yfirgripsmikla frumvarpi. Mig langar þó fyrst að segja að það er fagnaðarefni að frumvarpið skuli vera komið fram og að það sé ætlan hæstv. ráðherra og síðan vonandi þingsins að þetta mál klárist. Það hefur legið fyrir í afar mörg ár að fara þyrfti fram heildarendurskoðun á umferðarlögum. Seinustu ferð í þessu lauk ef ég man rétt 2013 og síðan hefur ekki verið gerð að því almennileg atlaga, má segja, alla vega ekki hér í þinginu.

Við yfirlestur þessa frumvarps sér maður fljótt að það hefur ýmislegt gerst síðan frumvarpið var lagt fram síðast í þinginu og margar greinar hafa batnað og tekið er á mörgum málum sem var ekki tekið á með sama hætti í frumvarpinu sem var lagt fram í þinginu 2012 og strandaði 2013 líklegast, held ég muni það rétt.

Mig langar að fókusera á tvennt. Það er annars vegar það sem snýr að reiðhjólum, sérákvæði fyrir reiðhjól í VII. kafla og hins vegar IX. kafla um áfengi og ávana- og fíkniefni, þó kannski mest það sem tengist í því sem snýr að reiðhjólum.

En áður en ég fer í reiðhjólin langar mig sérstaklega að fagna því sem segir í 4. mgr. 28. gr. Það er ákvæði um að slökkva skuli á ökutæki þegar menn yfirgefa það. Nú skal ég ekki segja til um hvort það sé ekki í gildandi lögum, en alla vega er þarna komið ákvæði um að það megi ekki lengur skilja bíl eftir í lausagangi og labba frá honum. Mér finnst það ágætt.

Að reiðhjólakaflanum. Það eru þrjár greinar sem eru sérreglur fyrir reiðhjól í þessu frumvarpi og ég velti því fyrir mér að það er hvergi komið inn á hraða í þeim nema þegar nefnt er að hjólreiðamaður megi stundum hjóla á venjulegum akstursgötum ef hraði þar er leyfður undir 30 km. Það er ekki komið inn á hraða reiðhjóla að neinu öðru leyti nema ef ég man rétt að það sé einhvers staðar reglugerðarheimild um eitthvað slíkt tengt sveitarfélögunum.

Nú vitum við að hraði reiðhjóla getur verið gríðarlega mikill, sérstaklega á hjólastígum og í keppni er ekki óalgengt að hjólreiðafólk hjóli á bilinu 50–60 km hraða og þaðan af meira. Það getur verið mjög hættulegt á hjólastígum, sérstaklega þar sem blandast saman að einhverju leyti umferð gangandi og hjólandi vegfarenda. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ástæða væri til að taka það sérstaklega fram í frumvarpinu annaðhvort að ráðherra hafi heimild til að setja sérstaka reglugerð um aksturshraða á hjólreiðastígum eða að ákvæði um hámarksaksturshraða á hjólreiðastígum verði hreinlega sett í lög. Þeir sem eitthvað hjóla vita það að jafnvel á hálfgerðum hjólagörmum er hægt með tiltölulega auðveldum hætti, ef menn eru í þokkalegu líkamlegu standi, að komast upp fyrir 30 km hraða á klukkustund. Það er töluverður hraði í samanburði við gangandi.

Það er ekki tekið sérstaklega á reiðhjólum á göngustígum utan þéttbýlis með öðrum hætti en þeim að sagt er að það megi hjóla á göngustígum. Það er svo sem góðra gjalda vert. En ég velti því fyrir mér hvort það þurfi að vera annaðhvort í frumvarpinu eða a.m.k. í nefndaráliti í greinargerð ákvæði um það með hvaða hætti slíkar hjólreiðar mega vera, t.d. þar sem eru vinsælar gönguleiðir. Tökum gönguleiðir eins og Laugaveginn, Fimmvörðuháls og fleiri slíkar þar sem er sannarlega hægt að vera á reiðhjóli en hætt við því að náttúruspjöll sem af því hlytust ef fjöldi manna færi að stunda þar hjólreiðar gætu orðið mikil. Þetta finnst mér að hv. nefnd þurfi að taka til umræðu og skoðunar.

Það er ekki mikið rætt um búnað reiðhjóla í frumvarpinu. Það er á einum stað talað um að hjólreiðamenn eigi að gefa hljóðmerki þegar þeir koma að fólki og það er góðra gjalda vert. Það þýðir þá líklega það þarf að vera einhvers konar hljóðgjafi eða sæmilega skýrmæltur hjólreiðamaður á ferð til að geta kallað, en það er til að mynda ekkert sagt um ljós eða ljósabúnað reiðhjóla sérstaklega. Við sem hjólum og sérstaklega þau okkar sem hjóla að vetri til líka vitum að ljós á reiðhjólum og þá oft og tíðum kröftug ljós eru kannski einna mikilvægustu öryggistækin. Ég myndi hvetja hv. nefnd til að meta það sérstaklega hvort það væri ástæða til að taka þetta fram í frumvarpinu.

Enn eitt atriði sem mér finnst ástæða til þess að skoða sérstaklega og að nefndin skoði er hvort það eigi hreinlega að setja ákvæði í lögin, á svipaðan hátt og það eru ákvæði um stæði fyrir bifreiðar, um stæði fyrir reiðhjól, að það væri skilyrt að það væru einhver tiltekin rými fyrir reiðhjól. Það er að mörgu leyti sérstakt þegar komnir eru sérstakir reiðhjólastígar að það eigi hvergi að vera hægt að geyma hjólin þegar komið er t.d. að opinberum byggingum eða þess háttar. Reiðhjól eru sannarlega tæki sem við getum notað til þess að minnka kolefnisspor okkar og þetta gæti verið ákveðin hvatning í þá veru.

Mig langar síðan að benda á ákveðið ósamræmi sem mér finnst vera í frumvarpinu á milli 6. mgr. 49. gr., þ.e. um bann við ölvunarakstri, og 3. mgr. 50. gr., um bann við ávana- og vímuefnaakstri. Það er hægt að skilja 49. gr. þannig að í sjálfu sér megi hjólreiðamaður hjóla á reiðhjóli án þess að það sé sérstaklega mælt hvaða vínandamagn er í blóði viðkomandi ef hann er ekki, eins og stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta, „undir svo miklum áhrifum áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna“.

Það má þá samkvæmt þessu hjóla undir einhverjum áhrifum áfengis en ekki undir neinum áhrifum annarra vímuefna. Ég velti fyrir mér hvort það þurfi að taka sérstaklega á þessu.

Síðan er eitt, það er orðaröð í þessum greinum, það er alltaf talað um að enginn megi neyta áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna. Áfengi er ekki örvandi efni þannig að orðaröðin í frumvarpinu ætti að vera: Enginn má neyta áfengis eða annarra deyfandi eða örvandi efna. Bara ábending til hv. nefndar að leiðrétta þetta.

Ég velti því síðan fyrir mér, frú forseti, hvort 79. gr. eigi ekki að kveða á um að það eigi að vera með reiðhjólahjálm þegar menn hjóla á reiðhjóli. Ég skal rökstyðja það.

Eins og ég sagði áðan þá er það orðið þannig að menn eru á reiðhjólum á umtalsverðum hraða og geta mjög auðveldlega skaðað sjálfa sig, en hjálmurinn verndar menn fyrst og fremst fyrir skaða á þeim sjálfum. Alveg á sama hátt og við ætlumst til þess að fólk sé með hjálma á léttum bifhjólum þar sem ökuhraðinn er oftast á bilinu 50–60 km eða eitthvað svoleiðis þá get ég ekki séð að það sé einhver skynsemi í því að láta menn ekki vera með reiðhjólahjálma þegar þeir hjóla á sama hraða, a.m.k. þegar þeir hjóla þar sem eru bifreiðar. Kannski má velta fyrir sér hvort það sé aðeins öðruvísi þegar þeir eru bara á lokuðum hjólreiðastígum, en þegar um er að ræða almenna umferð þá ætti það kannski að vera þannig.

Að lokum, frú forseti, þá er í skilgreiningunum í 3. gr. talað um hjólastíga, í 22. tölulið. Þar er sagt að hjólastígur sé ætlaður umferð reiðhjóla eða léttra bifhjóla í flokki I og sé merktur þannig o.s.frv. Ég velti því fyrir mér hvort það ætti að skilgreina frekar að hjólastígur væri fyrir reiðhjól eða önnur farartæki sem eru fótstigin, að vera ekki að flytja léttu bifhjólin þarna inn á eða þá að einskorða það við rafknúin ökutæki sem þar eru frekar en hjól með sprengihreyfli.

Nú kunna einhverjir að velta því fyrir sér hvers vegna að ég sé að fara með alla þessa romsu hér í ræðustól Alþingis um reiðhjól og af hverju ég komi ekki bara með þessar athugasemdir í hv. þingnefnd. Það er vegna þess að ég á ekki sæti í viðkomandi nefnd en vona að nefndarmenn taki þessar athugasemdir til greina og skoðunar.