149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

útlendingar og Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

221. mál
[19:41]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er tvennt sem vakti athygli mína. Það er annars vegar þetta að það kann að vera að aftur þurfi að breyta. Kom ekki til álita að bíða augnablik með að leggja þetta frumvarp fram? Persónuverndarlögin hafa tekið gildi. Þau eru staðreynd. Það ætti því að vera hægðarleikur fyrir sama ráðuneyti og samdi þau lög að yfirfara frumvarpið, hvort það standist þau lög. Maður áttar sig ekki alveg á því af hverju er verið að flýta sér með málið hingað inn ef vitað er, eða grunur leikur á, að aftur þurfi að breyta því. Ég spyr hvort tíma allra sé ekki betur varið með því að fá inn betur unnin frumvörp í stað þess að þurfa margsinnis að vera að leiðrétta þau.

Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig henni lítist á að meðfram því að stjórnvöldum er veitt heimild til að taka við, og barnavernd er veitt heimild til að veita þær, upplýsingum um aðbúnað barna sem eru komin hingað í leit að vernd, setjum við einnig inn skyldur stjórnvalda til að hlusta á barnavernd þegar hún kemur með ábendingar um það t.d. að brottvísun einstakra barna muni mögulega vera lífshættuleg, hvort setja eigi slíkt ákvæði í lögin, útlendingalög, að hlustað verði á barnavernd og ábendingar þaðan.