149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísa í lögráðamenn og kennara sem dæmi um starfsstéttir sem voru nefndar til þess að stöðva frumvarp sem ég hugðist flytja, um takmörkun á veitingu lögmannsréttinda, vegna þess að það ætti að ná yfir miklu stærra net hvað varðar starfsskilyrði. Ég átti von á því að það kæmi í þessu frumvarpi, sérstaklega miðað við það hve langan tíma hefur tekið að koma því á koppinn, þ.e. að það myndi ná yfir breiðara svið ábyrgðar.

Það sem ég spurði út í áðan hefur með barnaverndarnefndir að gera. Ef við skoðum kjörgengi til barnaverndarnefnda gilda um það sömu reglur og um kjörgengi til sveitarstjórna. Hefur það verið skoðað hvort það þýðir þá að einstaklingur geti brotið á barni, afplánað sinn dóm og síðan talist kjörgengur til barnaverndarstarfa? Er búið að skoða hvaða áhrif þessi breyting á kjörgengi, þ.e. að búið sé að taka út óflekkaða mannorðshlutann, hefur á kjörgengi í fleiri nefndir og ráð? Er það alveg öruggt miðað við allan þann tíma sem hefur farið í þetta?

Ég hlýt að spyrja að því, í samhengi við frumvarp sem hæstv. ráðherra hyggst leggja fram nú fljótlega, um að hætt verði að birta nafn kynferðisbrotamanna yfir höfuð: Ef einstaklingar gerast kjörgengir um leið og þeir eru búnir að afplána sinn dóm, hvernig í ósköpunum eiga kjósendur að vita hvort þeir séu að kjósa brotamenn til æðstu embætta? Hvernig eigum við að vita það ef hæstv. ráðherra hyggst afmá nöfn þeirra úr almennri umræðu?