149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[20:29]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér fjöllum við um heilmiklar breytingar á fjölmörgum lögum, nánar tiltekið 32 lögum, þar sem fjallað er um skerðingu á réttindum í kjölfar þess að hafa gerst sekur um refsivert athæfi sem telja megi svívirðilegt að almenningsáliti. Eða hvað?

Jú, með þessu frumvarpi er lagt til að horfið verði endanlega frá þeirri framkvæmd að stjórnvöld taki ákvarðanir um uppreist æru, sem ég held að við getum flest verið sammála um að er óhæft að sé í hendi einstaklings sem í það og það skipti skipar sæti dómsmálaráðherra.

Þetta leiðir hugann óneitanlega að stjórnarskránni okkar, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem er sú stjórnarskrá sem okkur var færð af dönskum kóngi á þarsíðustu öld og sumir stjórnmálaflokkar sem starfa á þingi hafa verið illfáanlegir til að breyta. Í stjórnarskránni er nefnilega að finna ákvæði, 29. gr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Ég vil eiginlega hvetja hæstv. dómsmálaráðherra til að koma með okkur baráttufólki fyrir fullnægjandi stjórnarskrá í þann leiðangur sem hafinn var fyrir margt löngu því ég held að forsetinn, hver sem það er í hvaða skipti, eigi heldur ekkert að hafa þetta vald.

En aftur að frumvarpi því sem hér er rætt þar sem brugðist er við þeirri stöðu sem varð eftir að ákvæði um uppreist æru var fellt út úr hegningarlögunum haustið 2017 en þó breytt í meðförum þingnefndar með bráðabirgðabreytingu.

Nú er verið að leggja til breytingar á 32 lögum er varða fjölmargar stjórnir, svo sem stjórn Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlits, einhver embætti, svo sem embætti ríkisskattstjóra og ríkissáttasemjara, en einnig dómaraembætti, stöðu sérfróðra meðdómenda, matsmanna og síðast en ekki síst endurskoðenda og lögmanna. Síðastnefnda starfið var einmitt töluvert til umræðu þegar skyndilega var tekin ákvörðun um það á haustmánuðum 2017 að fella út ákvæði í almennum hegningarlögum um uppreist æru.

Ég held að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að þeir sem gegna áðurnefndum störfum og embættum uppfylli ákveðin tilgreind hæfisskilyrði en einnig ákveðin siðferðileg skilyrði. Þannig er í greinargerð með frumvarpinu tilgreint að innan fjölmargra starfsstétta megi finna ákvæði er þrengja enn fremur að starfsfólki, svo sem kröfur til þeirra sem vígjast til preststarfa, samanber lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þar segir að sú krafa sé gerð til kandídats til skipunar eða setningar í prestsembætti að viðkomandi hafi ekki gerst „sekur um athæfi sem ætla má að rýri álit hans og sé ósamboðið manni í prestsstarfi“. Það er ekkert skýrt nánar hvað í þessu felst.

Sambærilegt ákvæði má líka finna í æskulýðslögum sem og lögum um farþega- og farmflutninga, svo eitthvað sé nefnt. Skerðingar á starfsleyfum má þannig finna víða.

Í greinargerð með frumvarpi því sem við fjöllum hér um er einmitt minnst á mikilvægi þess að koma mati á slíkri hömlun á réttindum til starfa frá stjórnvöldum. Ég held að það sé alveg hárrétt. Þannig eigi það ekki lengur að vera ráðuneytið sem hafi það vald að veita einstaklingum sem þangað leita uppreist æru. Áfram er þetta hjá forseta en við skulum vona að forsetinn beiti þessu ekki, hvorki sá sem við höfum núna eða sá sem á eftir kemur.

Mig langar að víkja máli mínu að ákvæði frumvarpsins sem finna má í XIII. kafla sem varðar lögmenn. Þar er lagt til að hið mjög svo loðna ákvæði um óflekkað mannorð sé fellt brott en inn komi nýr málsliður líkur þeim sem finna má hjá fjölmörgum öðrum aðilum í frumvarpinu, að sá geti öðlast lögmannsréttindi sem hafi tiltekin skilyrði uppfyllt en að auki megi viðkomandi ekki hafa hlotið fangelsisdóm fyrir refsiverðan verknað framinn eftir að viðkomandi varð 18 ára. Allt er þetta vel skiljanlegt og mjög sambærilegt við það sem má sjá víða annars staðar í frumvarpinu.

En svo er bætt við að það megi víkja frá þessu skilyrði. Það má víkja frá þessu skilyrði að fenginni umsögn Lögmannafélags Íslands þegar fimm ár eru liðin frá því að afplánun lauk að fullu, en þó ekki ef eðli brotsins og háttsemi umsækjanda er til þess fallin að rýra það traust sem lögmenn þurfa að njóta. Svo segir:

„Við matið skal líta til eðlis og alvarleika brotsins, m.a. þeirra hagsmuna sem brotið var gegn, ásetnings og aldurs umsækjanda þegar brot var framið, hvort brotið hafi verið framið í tengslum við atvinnurekstur og þess tjóns sem brotið olli. Þá skal einnig meta háttsemi umsækjanda frá því að afplánun lauk, þá einkum hvort umsækjandi hafi ólokin mál í refsivörslukerfinu.“

Sú sem hér stendur er fullkomlega sammála því sem kemur fram í greinargerð, að mikilvægt sé að lögmenn séu þess trausts verðir sem skjólstæðingar þeirra og samfélagið þurfi að bera til þeirra. En sá tilgangur sem sagður er vera með breytingu á lögunum, þ.e. að taka úr höndum stjórnvalda þetta vald til að meta hæfi viðkomandi umsækjanda til að iðka störf sín, virðist algerlega fokinn út í veður og vind. Stjórnvöld þurfa áfram að taka stjórnvaldsákvörðun að undangenginni umsögn Lögmannafélags Íslands fimm árum eftir að viðkomandi lauk afplánun refsidóms um það hvort öll þessi handahófskenndu og matskenndu atriði séu uppfyllt.

Þetta á eingöngu við um lögmenn. Bara lögmenn. Af öllum 32 lögunum sem er verið að breyta. Þó nokkrir aðilar sem tilgreindir eru í frumvarpinu hafa enga slíka möguleika, enga slíka undanþágu. Bara lögmenn. Aðrir geta ekki leitað til stjórnvalda til að veita undanþágur frá settum skilyrðum. Má þar nefna héraðsdómara, landsréttardómara, hæstaréttardómara, sérfróða meðdómendur í einkamálum og sakamálum. Það er heldur enginn slíkur möguleiki fyrir þá sem taka sæti í landsdómi.

Takið eftir að um þá sem taka sæti í landsdómi er bætt við sérstöku ákvæði um að þeir megi hvorki hafa hlotið dóm né sýnt af sér háttsemi sem geti rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta. Þarna ætlum við líka að hafa einhvers konar mat á því. Hvaða traust er það sem dómarar verða almennt að njóta? Mega þeir ekki brúka munn eða mega þeir ekki brjóta lög?

Svo má líka velta fyrir sér þeim stéttum sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir minntist á áðan. Hvað með kennara? Hvað með lögráðamenn? Í lögunum er rætt um skiptastjóra. Skiptastjórar eru jú þeir sem höndla með peninga. Lögráðamenn eru að hugsa um peninga en líka ýmiss konar velferð, vistun og fleira. Svo eru líka til fjárhaldsmenn, bæði barna og fullorðinna, sjálfræðissviptra. Ekkert minnst á þá.

Ég er ansi hrædd um að við neyðumst til að skoða sérstaklega hvernig við ætlum að haga starfsleyfisveitingu bæði hvað lögmenn varðar og aðra. Hvað merkir t.d. að horfa skuli sérstaklega til þess þegar undanþága er veitt frá starfsleyfisskilyrðum hvort brot hafi verið framið í atvinnustarfsemi? Hvað þýðir það? Tiltekið er í greinargerð að lögmenn hafi trúnaðarskyldum að gegna gagnvart umbjóðanda sínum og því mikilvægt að líta til þess hvort umrædd brot hafi verið framin á þeim vettvangi. En hvað ef svo var ekki? Er betra að viðkomandi umsækjandi um lögmannsréttindi hafi níðst á öðru fólki en því sem leitaði til hans? Er það betra að fjársvik, misneyting eða önnur refsiverð háttsemi hafi átt sér stað í hans daglega lífi utan vinnutíma?

Maður veltir fyrir sér hvort það geti verið rétt að láta lögmenn lúta sömu skilyrðum og dómara og meðdómendur þannig að engar undantekningar séu veittar, eða sömu skilyrðum og aðrir, svo sem endurskoðendur eða ríkissáttasemjari.

Eins og áður sagði eru þó nokkrar stéttir sem þurfa að lúta sérstökum skilyrðum til starfa fyrir utan þau skilyrði er snúa að menntun. Lögreglumenn, skipstjórar, flugmenn þurfa t.d. að þola margvísleg skilyrði um heilsufar en einnig hreint sakarvottorð. Þetta er úti um allt í kerfinu. Sama má segja um presta þjóðkirkjunnar sem mega ekki hafa gerst sekir um athæfi sem rýri álit þeirra og sé ósamboðið manni í preststarfi.

Það má ekki misskilja mig. Ég er mjög hlynnt því að meðalhófs sé gætt, að við tryggjum mannréttindi fólks, að við skerðum ekki mannréttindi umfram það sem nauðsynlegt er. Meðalhófið er gulls í gildi. En jafnræðið er það líka. Það er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld gæti þess í hvívetna að jafnræði og meðalhóf séu fyrst og fremst það sem horft er á þegar lagasetning er annars vegar.

Sumir þeir sem frumvarpið fjallar um missa tækifærið til skipunar í embætti eða stöður til frambúðar, án undantekninga. Aðrir missa tækifærið í fimm ár frá afplánun og enn aðrir rétt á meðan þeir afplána dóma sína. Það er þetta sem ég held að við þurfum að skoða sérstaklega, þ.e. hvort tilefni sé til að hafa svona mismunandi reglur, sums staðar mjög matskenndar heimildir til stjórnvalda sem þó á að aflétta þessari kvöð að meta með frumvarpinu. Ég held að við þurfum að skoða það hér í meðförum þingsins hvort tilefni sé til að sama línan gildi fyrir alla, eða a.m.k. að kanna hvort ástæða sé til að hafa svona matskennd atriði í löggjöfinni.