149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skógar og skógrækt.

231. mál
[22:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara út í samræður við hv. þingmann um mögulegt samspil þessa frumvarps og stjórnarskrár. Eins og hv. þingmaður benti réttilega á er það eitthvað sem bíður hv. þingnefndar að fara yfir.

Ég bað hins vegar um að fá að veita andsvar þegar ég heyrði hv. þingmann tala um eignarréttinn, sem nefndur var nokkrum sinnum á nafn, og vísa til hans sem hann væri bestur í að ná góðum árangri í loftslagsmálum (Gripið fram í.) … fyrirgefðu … (TBE: Í umhverfismálum.) í umhverfismálum, af því að það væri löngu sannað að menn færu betur með það sem þeir ættu. Ekki veit ég hvað hv. þingmaður skilgreinir sem umhverfismál. Það væri kannski ágætt að fá betri útskýringu á því.

Ég hefði haldið að lærdómurinn sem við gætum dregið af stöðu mála almennt í, ég ætla að leyfa mér að segja heiminum, þegar kemur að umhverfismálum, loftslagsmálum, náttúrumálum og fleiru, væri að of lengi hefði eignarrétturinn, og það hvernig við græðum hvert og eitt okkar á honum, ráðið för. Það sem hefði vantað væri meiri sameiginleg sýn á að hvert og eitt okkar væri kannski tilbúið að gefa örlítið eftir af okkar þrönga eignarrétti fyrir stærri hagsmuni.

Ég ætla ekki að ræða það í samhengi við nákvæmlega þetta frumvarp heldur var það þetta sem sló mig af því að ég hélt að við værum stödd á þeim stað akkúrat núna að þurfa einmitt að hefja okkur upp yfir eignarréttinn í ljósi válegra tíðinda af stöðu heimsmála þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum.